Öryrkjabandalag Íslands eru regnhlífarsamtök fatlaðs fólks sem gætir hagsmuna yfir þrjátíuþúsund fatlaðra og langveikra einstaklinga og aðstandenda þeirra á Íslandi. Við erum einstakur vettvangur sem samanstendur af 43 hagsmunafélögum sem öll starfa á landsvísu. Við erum sterk, sameinuð rödd fatlaðs fólks og langveikra einstaklinga, öryrkja og aðstandenda.
Aðlildarfélög okkar hafa unnið sleitulaust að því að efla og tryggja réttindi fatlaðs fólks í COVID 19 kreppunni.
Við höfum miklar áhyggjur af aðstæðum fatlaðs og langveiks fólks og fjölskyldna þeirra, og skorum á stjórnvöld að tryggja að þær aðgerðir sem gripið er til vegna Covid-19 virði þær skuldbindingar gagnvart fötluðu og langveiku fólki, að byggja upp samfélag án aðgreiningar.
Þessi fordæmalausa kreppa hefur leitt í ljós hörmuleg áhrif vanfjárfestinga í grunnstoðum samfélagsins s.s. félags- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Efnahagsbatinn, sem stjórnvöld eru nú að skipuleggja, verður að taka á öllum sprungum í kerfinu.
- Að öll viðbrögð stjórnvalda tryggi að fatlað og langveikt fólk sé ekki skilið eftir.
- Að verndar- og stuðningsaðgerðir varðandi fatlað og langveikt fólk séu tryggðar.
Tryggja þarf pólitískan stuðning og fjárhagslega styrkingu félagsmála-, atvinnumála- og heilbrigðiskerfanna sem halda samfélagi okkar gangandi; þjónusta þessara kerfa hefur reynst lífsnauðsynleg í þessari kreppu.
Áhrif COVID 19 á atvinnulífið eru mikið áhyggjuefni. Um leið ber að viðurkenna að ástandið hefur jafnvel enn meiri áhrif á örorkulífeyrisþega, ekki síst fatlaðar konur.
Á Íslandi býr mjög stór hópur öryrkja við fátækt og sárafátækt, í því samhengi má benda á að allt að 70% þess stóra hóps sem sækir nauðþurftir til hjálparsamtaka er fatlað fólk.
Fatlað fólk er oft með auðuppsegjanlega starfssamninga og lág laun sem veita þeim litla sem enga vernd þegar fyrirtæki draga saman seglin.
Viðbrögðin við COVID 19 heimsfaraldrinum ættu ekki að miða við ástandið sem var. Nýjar áherslur og fjárfestingar stjórnvalda verða að leiða af sér samfélag mannréttinda fyrir alla. Samfélag sem tryggir öllum jafnræði, sjálfræði og mannlega reisn.
Allar aðgerðir stjórnvalda verða ávallt að vera í samræmi við mannréttindaskuldbindingar íslenska ríkisins, það á ekki síst við nú, þegar aukið fjármagn fer í að bjarga mannslífum og að tryggja lífsviðurværi fólks.
Vernd lífsins og virðing fyrir mannréttindum eru óaðskiljanleg.
Grípa þarf til aðgerða til að forðast að COVID 19 skapi langvarandi skaða á samfélagi okkar og hagkerfi. Við skorum því á þig að:
- Eyrnamerkja og tryggja umtalsvert hlutfall af fjármunum í fjárlögum til félagslegrar þátttöku þeirra sem eru í mikilli hættu á fátækt og félagslegri útskúfun og finna sig nú enn frekar jaðarsetta, sérstaklega skal líta til fatlaðs og langveiks fólks.
- Tryggja fjármagn til þess að sjálfstætt líf og samfélagsþáttaka allra sé raunverulegur valkostur s.s. NPA. Sérstaklega þarf að tryggja viðbrögð, varnir og eftirfylgni fatlaðs fólks sem t.d. býr á stofnunum og er í sérstakri hættu á að smitast, verða fyrir ofbeldi og vanrækslu.
- Tryggja að fjármagni verði áfram veitt til fatlaðs og langveiks fólksáfram um fyrirsjáanlega framtíð, þar sem fyrirséð er að það þarf að vera í verndarsóttkví og einangra sig lengur en aðrir.
- Sjá til þess að leitað verði til samtaka fatlaðs fólks til starfa í nefndum, starfshópum og öðrum úrræðum sem stofnað er til, til að ræða, ákveða og hafa eftirlit með viðbrögðum við COVID 19 og efnahagsþrengingum sem fylgja, og til að fylgja eftir efnahagsbata.
- Tryggja verður aðkomu heilbrigðis- og félagsþjónustu, þ.m.t. þjónustu við fatlað fólk (nám án aðgreiningar, starf án aðgreiningar, persónulegur stuðningur o.s.frv.) þegar metið er í hvaða verkefni fjármagni er veitt: Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á viðeigandi aðstoð heima hjá sér. Fjármuni þarf til að hægt sé að veita hana. Gera þarf ráðstafanir til að fylgjast með framgangi þessa.
- Tryggja verður að fatlað og langveikt fólk njóti þjónustu heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
- Tryggja verður að aðgerðir stjórnvalda leiði ekki til afnáms á aðgerðum sem þegar eru fyrirhugaðar til að styðja við félagslega þátttöku fatlaðs fólks.
- Tryggja verður víðtæka söfnun gagna um COVID 19, afleiðingar og viðbrögð faraldursins, sundurliðuð eftir aldri, kyni og fötlun svo hægt sé að þróa markvissar stuðningsaðgerðir til að koma í veg fyrir að aðstæður fatlaðs fólks versni.
- Að tryggja eftirfarandi ráðstafanir til að styðja við fatlað og langveikt fólk:
- Lækkun skatta og skerðinga,
- Niðurgreiðslu á vörum og þjónustu,
- Greiðsluaðlögun til greiðslu tiltekinna útgjalda,
- Sjálfvirka framlengingu á örorkutengdum réttindum (lyf, sjúkraþjálfun, samgöngur).
- Ráðstafanir geta ekki takmarkaðast við eingreiðslur til örorkulífeyrisþega.
Yfir þrjátíuþúsund fatlaðir og langveikir einstaklingar og fjölskyldur þeirra bíða eftir að heyra frá þér, að tekið sé fullt tillit til þeirra þarfa, þar með talið lífeyris sem tryggir mannsæmandi líf, í aðgerðaráætlunum stjórnvalda vegna Covid-19
Öryrkjabandalag Íslands er tilbúið að vinna náið með þér að því að endurreisa samfélagið upp úr COVID 19.
Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður Öryrkjabandalags Íslands.