COVID-19 faraldurinn er ein stærsta áskorun sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyrir og hefur gríðarleg áhrif á almannaheill og efnahag. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum samfélagshremmingum og því er mikilvægt að kanna áhrif faraldursins á íslensku þjóðina.
Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:
- Hver eru áhrif COVID-19 faraldursins á einkenni streitu, sálræna líðan og lífsstíl landsmanna?
- Tengist saga um sjúkdóma og aðra áhættuþætti, staðfest COVID-19 smit, sóttkví, einangrun eða breytingar á efnahag og daglegu lífi aukinni streitu, slakari líðan og lífsstíl?
- Hafa sterk streitu- og geðræn einkenni á þessum óvissutímum faraldursins viðtækari áhrif á heilsufar til lengri tíma?
Verkefnið miðar einnig að því að miðla almennum upplýsingum til þátttakenda og allra landsmanna um geðrækt og hvert hægt er að leita til að fá stuðning og geðheilbrigðisþjónustu á þessum óvissutímum.
Væntingar standa til þess að rannsóknin muni gefa skýr svör við ofangreindum spurningum en slík þekking er mikilvæg yfirvöldum við skipulag heilbrigðisþjónustu og almannavarna á tímum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldurinn COVID-19.
Öryrkjabandalag Íslands hvetur alla sína félagsmenn til að taka þátt, svo rödd fatlaðs og langveiks fólks heyrist í þessari könnun.