Öryrkjabandalagið gerði athugasemd við þessa framkvæmd, með því að senda erindi til Persónuverndar um þetta athæfi TR.
Skemmst er frá því að segja að Persónuvernd brast hratt við, og hafði samband við Tryggingastofnun samdægurs. Í svarbréfi Persónuverndar til ÖBÍ segir að erindi hafi verið sent Tryggingastofnun ríkisins 20. apríl, (samdægurs) auk þess sem rætt hafi verið við persónuverndarfulltrúa stofnunarinnar.
Bréf Persónuverndar er svohljóðandi:
Persónuvernd vísar til fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga þar sem fram hefur komið að Tryggingastofnun ríkisins (TR) telji sér heimilt að skoða IP-tölur einstaklinga sem þiggja lífeyri frá stofnuninni til þess að fylgjast með staðsetningu þeirra. Þetta sé gert í þágu reglubundins eftirlits.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem birst hafa um málið í fjölmiðlum hefur TR vísað, framangreindu til stuðnings, til niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2009/635 hjá stofnuninni, en í því máli gerði Persónuvernd ekki athugasemd við skoðun Vinnumálastofnunar á þeim hluta IP-tölu sem hafði að geyma auðkenni þess lands sem IP-talan stafaði frá, þ.e. í rafrænni tilkynningu til stofnunarinnar um atvinnuleysi.
Með vísan til þessa vill Persónuvernd koma ábendingu á framfæri við TR um niðurstöðu stofnunarinnar í nýlegu máli sem einnig varðaði notkun Vinnumálastofnunar á upplýsingum um IP-tölur þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur, en málið er nr. 2018/1718 og var úrskurður í því kveðinn upp 28. nóvember 2019.
Í forsendum úrskurðarins er meðal annars vísað til þess að virkni VPN-tenginga og aðgengileiki þeirra dragi verulega úr áreiðanleika upplýsinga um IP-tölur einstaklinga að því leyti sem slíkar upplýsingar séu nýttar til að staðreyna staðsetningu hlutaðeigandi einstaklings. Þá hafi notkun VPN-tenginga aukist verulega og þekking á þeim sé orðin mun meiri og útbreiddari en áður.
Í ljósi þessa var það mat Persónuverndar að þau sjónarmið, sem byggt var á í eldri niðurstöðum stofnunarinnar um skoðun IP-tölu, ættu ekki lengur við. Var það niðurstaða Persónuverndar að upplýsingar um IP-tölur uppfylltu ekki kröfur 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, hvað varðar áreiðanleika persónuupplýsinga. Var jafnframt lagt fyrir Vinnumálastofnun að láta af notkun upplýsinga um IP-tölur umsækjenda um atvinnuleysisbætur, á meðan ekki væru til úrræði til að staðfesta áreiðanleika þeirra.
Með vísan til alls framangreinds er Tryggingastofnun ríkisins leiðbeint um að taka núverandi verklag sitt við könnun á búsetu einstaklinga til skoðunar með hliðsjón af fyrrgreindri niðurstöðu Persónuverndar.
Ef óskað er leiðbeininga eða álits Persónuverndar á tilteknum atriðum í tengslum við framangreint er Tryggingastofnun ríkisins hvött til þess að senda Persónuvernd erindi þar að lútandi.
Afrit af úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2018/1718 er hjálagt.
Von er á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsháttum Tryggingastofnunar.