Skip to main content
Frétt

Austurvöllur #2 Mótmælafundur 7. des

By 6. desember 2019No Comments

Ung vinstri græn, Ungir jafnaðarmenn, Ungir píratar og Ungir sósíalistar hafa bæst í hóp þeirra sem standa að baráttufundinum “Lýðræði – ekki auðræði” á morgun, laugardaginn 7. desember. Einnig hefur Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar ákveðið að styðja kröfur fundarins. Félögin sem þegar höfðu lýst yfir stuðningi eru auk Stjórnarskrárfélagsins: VR stéttarfélag, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalag Íslands, Gagnsæi – samtök gegn spillingu, Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá og hópur almennra borgara og annarra félagasamtaka.

Samstaðan fer því vaxandi.

Ræðufólk á morgun verður:

* Drífa Snædal, formaður ASÍ

* Bragi Páll Sigurðarson, rithöfundur 

* Þorgerður María Þorbjarnardóttir frá Ungum umhverfissinnum

* Fulltrúar Krakkaveldis

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins og einn skipuleggjanda, segir að rúmlega 4600 manns hafi mætt á Austurvöll laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn og tekið undir kröfurnar: “Þegar eitt fjölmennasta stéttafélag landsins bætist í hópinn, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, er ljóst að afar stór hluti landsmanna styðji kröfurnar okkar. Slíka samstöðu og fjölda getur engin ríkisstjórn hunsað eða horft fram hjá.”

 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir:
“VR hvetur almenning til að sýna samstöðu gegn spillingu og mæta á Austurvöll.”

Þær kröfur sem liggja að baki fundarins eru þær að:

* Sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér embætti

* Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. – Að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu.

* Arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.

 

 

Á fundinum mun Hemúllinn flytja tónlist og hann segir:
“Spillingin er með skollaeyru – þess vegna þarf að öskra á hana.”

 

Nánari upplýsingar er hægt sjá á Facebook-viðburði mótmælanna: https://www.facebook.com/events/438879670108991/

 

Fyrir hönd skipuleggjenda,

 

Stjórnarskrárfélagið.