Fjöldi örorkulífeyrisþega hefur sökum þessa að undanförnu fengið í hendurnar kröfu um endurgreiðslu frá Tryggingastofnun, og geta fjárhæðirnar numið nokkrum tugum þúsunda í frádrátt á hverjum mánuði, þar til skuldin er greidd.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að einstaklingur taldi á sér brotið þegar Reykjavíkurborg vísaði til reglna borgarinnar um sérstakar húsaleigubætur, og taldi að þeir sem leigðu hjá Brynju hússjóði, féllu utan þeirra og ættu þar með ekki rétt á bótunum. Reykjavíkurborg áfrýjaði til Hæstaréttar, eftir að hafa tapað málinu fyrir héraðsdómi.
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a. að áfrýjanda sem sveitarfélagi sé óheimilt að mismuna þeim sem þar eiga lögheimili, nema slíkt styðjist við málefnaleg rök, og því hvíldi sú skylda á borginni að gæta þess við afgreiðslu á umsókn stefndu um sérstakar húsaleigubætur, í samræmi við 11. gr stjórnsýslulaga, að ekki væri á hana hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem njóta bótanna. Hæstiréttur staðfesti því dóm héraðsdóms.
Reykjavíkurborg dró þó lappirnar í málinu og það var ekki fyrr en skömmu fyrir kosningar 2018 að borgarstjóri loks samþykkti að una og fylgja dómnum. Fjöldi manns sá nú fram á fá greiddar sérstakar húsaleigubætur, fjögur ár aftur í tímann.
Borgin gaf en ríkið tók
En upp rennur árið 2019 og nú er Tryggingastofnun að fara yfir skattframtöl öryrkja. Nú voru allir þeir sem fengu loks leiðréttingu á sérstökum húsaleigubótum, með fjármagnstekjur á framtali sínu vegna dráttarvaxtagreiðslu Reykjavíkurborgar.
Og Tryggingastofnun lítur á fjármagnstekjur sem aðrar tekjur, sem skerða skulu örorkulífeyrisgreiðslur. Við uppgjör fengu því fjölmargir sem loks fengu réttlætinu fullnægt í baráttu sína við borgina, bakreikning, þar sem dráttarvextirnir voru í raun teknir til baka, með krónu á móti krónu skerðingum. Og endurkrafan hljóðar í mörgum tilvikum upp á tugi þúsunda á mánuði.
Greiðsla dráttarvaxta samhliða leiðréttingunni er enn inn í tekjuskoðun fyrir húsnæðisbætur og þar með sérstakan húsnæðisstuðnings borgarinnar.
Tekjur sama almanaksárs hafa áhrif við útreikning húsnæðisbóta. Umræddir dráttarvextir voru greiddir árið 2018 og komu inn í endurreikning fyrir húsnæðisbætur sama árs. Það varð til þess að fólk sem fékk dráttarvexti fékk einnig kröfu/skuld eftir endurreikninginn í vor, sem lækkar þá húsnæðisstuðning á þessu ári. Dráttarvextirnir eru auk þess enn að hafa áhrif við útreikning húsnæðisbóta á árinu 2019, þar sem fjármagnstekjur ársins 2018 eru enn inn í tekjuskoðuninni eða þar til nýrri upplýsingar um fjármagnstekjur liggja fyrir. Þetta þýðir í raun að fjármagntekjur ársins 2017 liggja til grundvallar útreikning húsnæðisbóta þar til Íbúðalánasjóður hefur fengið framtöl tekjuársins 2019 eða vorið 2020.
Samkvæmt upplýsingum frá húsnæðisbótasviði Íbúðalánasjóðs getur fólk í þessari stöðu sent þeim áætlun um fjármagnstekjur sínar á árinu 2019 í gegnum „fyrirspurnir“ á „mínum síðum“ eða sent í bréfpósti ef viðkomandi hefur ekki aðgang að tölvu. Einnig er hægt að láta fylgja með bréf borgarinnar um greiðslu dráttarvaxta. Ef ekki er óskað eftir breytingu mun áfram verða notaðar upplýsingar af síðasta skattframtali þar til nýtt liggur fyrir vorið 2020. Í bréfi sem Íbúðalánasjóður sendi í sumar þeim sem höfðu fengið ofgreiddar húsnæðisbætur vegna þessa bent á að Íbúðalánasjóði er heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu að fulla eða að hluta, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem mæla með því s.s. vegna fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda, sbr 22.gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Hægt er að sækja um slíka niðurfellingu með tölvupósti á netfangið greidsla@ils.is.
Öryrkjabandalagið fór fram á það við félagsmálaráðherra að hann beitti sér fyrir því að dráttarvextir sem greiddir eru vegna vangreiddra bótagreiðslna frá ríki eða sveitarfélögum, verði ekki taldir með við útreikning á tekjum við uppgjör Tryggingastofnunar. Einfalt er að breyta reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, þannig að skerðingar vegna einskiptis dráttarvaxta á vangreiddar bætur falli niður. Í svari ráðherra var hins vegar einungis bent á þann möguleika í lögum um almannatryggingar, að dreifa eigin tekjum sem stafa af fjármagnstekjum til 10 ára. Sem sagt, skerðingar áfram, bara til miklu lengri tíma. Þetta er þó háð því, að hver og einn sæki um þessa aðlögun, með tilheyrandi álagi á þær stofnanir sem taka við.
Kerfið lætur ekki að sér hæða.