Auður Styrkársdóttir segir í grein á vef kvennablaðsins að kosningaréttur hafi ekki orðið almennur hér á landi fyrr en árið 1984. „Það er býsna stutt síðan kosningalög litu svo á að fólk sem var svipt fjárræði af einhverjum ástæðum, t.d. vegna geðsýki eða þroskahömlunar, og sömuleiðis sakamenn, hefði ekki vit eða rétt til að velja sér fulltrúa. Ég hallast að því að þá fyrst hafi kosningaréttur orðið almennur á Íslandi þegar þessi ákvæði voru afnumin. Það var árið 1984“
Því fer þó víðs fjarri að fatlað fólk hafi notið þess réttar til fulls en allskonar hindranir bæði ósýnilegar og sýnilegar hafa staðið í vegi fyrir því. Sem dæmi má nefna á vorið 2012 fékk fatlað fólk ekki notið aðstoðar eigin aðstoðarmanns við að kjósa. Höfðaði ÖBÍ mál vegna þess sem tapaðist. Haustið 2012 var framkvæmdinni breytt og í dag á allt fatlað fólk rétt til að kjósa. Þann 17. júní 2015 segir Embla Guðrún Ágústsdóttir í grein sinni í Morgunblaðinu „Það hvort þú hefur raunverulegan kosningarétt ræðst af því hvernig kona þú ert og hvernig fötluð manneskja þú ert.“ Hún segir ennfremur „Enn eru konur á Íslandi sem geta ekki nýtt kosningarétt sinn. Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki nóg að fjalla einungis um jafnrétti kynjanna eða jafnan rétt fatlaðs og ófatlaðs fólks því misréttið hefur hinar ýmsu birtingarmyndir.“
Á 100 ára afmælinu var fjöldi viðburða í boði, þar á meðal viðburðir sem stjórnvöld styrktu sérstaklega, þá stigu fram tveir öflugir karlar úr röðum fatlaðs fólks og bentu á að stór viðburður sem haldinn var í Bíó-Paradís væri ekki aðgengilegur fötluðu fólki sem notaði hjólastóla. Þeir bentu á það óréttlæti og þá aðgreiningu sem þarna var augljóslega og ófatlað fólk hugsaði ekki um. Þá væri það á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að aðgengi væri tryggt öllum, og í það minnsta að þeim viðburðum sem ríkið styrkti. Í dag er Bíó Paradís aðgengileg.
Í dag á hundraðasta og fjórða afmælisdegi kosningaréttar og á degi sem kenndur er við kvenréttindi skulum við staldra við. Við getum spurt okkur hvort réttindi fatlara kvenna hafi aukist, hvort réttindin séu raunveruleg? Víst er að þau hafa aukist og á síðustu 35 árum eða jafnvel hvað mest á síðustu sex árum. Má nefna að ný lög sem auka réttindi fatlaðs fólks hafa tekið gildi, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur í desember 2016, MeeToo byltingin varð, Tabú feminísk hreyfing kom fram á sjónarsviðið og ýmsir fatlaðir kvenaktívistar hafa vakið máls á mörgum baráttumálum. Enn þarf að huga að réttindum kvenna ekki síst fatlaðra kvenna, enn standa hindranir bæði sýnilegar og ósýnilegar í vegi fyrir því að fatlaðar konur njóti lífs til jafns við aðrar konur. Kæru kynsystur og bræður beitum okkur fyrir betra samfélagi, samfélagi sem rúmar okkur öll í okkar margbreytileika.