Viðtal við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann Öryrkjabandalags Íslands í Morgunblaðinu, mánudaginn 20. maí 2019. Fréttamaður: Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is
Atvinnan er auðlind
„Við eigum að ráðast á orsakir örorku en ekki á afleiðingarnar,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Á vegum bandalagsins var fyrir helgina haldið málþingið Allskonar störf fyrir allskonar fólk þar sem rætt var um stöðu og möguleika fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Stjórnvöld vinna nú að breytingum á framfærslukerfi almannatrygginga þar sem að leiðarljósi er haft að taka upp mat á starfsgetu í stað örorku.
Starfshópur sem unnið hefur að framgangi þessa máls skilaði nýlega inn skýrslu um málið til félagsmálaráðherra, en formaður hópsins skrifaði aðeins einn undir tillögurnar. Aðrir sátu hjá eða skrifuðu ekki undir, svo sem fulltrúar ÖBÍ og Alþýðusambands Íslands.
Viljum skapa manneskjulegri vinnumarkað
„Afstaða ÖBÍ er sú að starfsgetumat komi ekki veg fyrir fötlun og veikindi. Matið mun heldur ekki duga því fólki sem fellur út af vinnumarkaði vegna veikinda eða fötlunar seint á lífsleiðinni. Stærstur hópur þeirra sem koma nýir inn á örorkulífeyri er fólk sem komið er yfir fimmtugt og þar eru konur með stoðkerfisvanda í meirihluta,“ segir Þuríður Harpa.
„Leita verður leiða til að gera vinnumarkað og -umhverfi manneskjulegra og fjölskylduvænna. Þá þarf að styrkja geðheilbrigðisþjónustu, skoða menntakerfið og jafnframt skoða aðstoð við foreldra sem eiga börn með fatlanir og raskanir. Einnig að skoða hvernig hægt sé að styðja við börn og unglinga betur en gert er í dag. Allt þetta þarf að nálgast heildstætt. Við erum því á móti starfsgetumati, en styðjum þess heldur að hér verði byggður upp vinnumarkaður þar sem allir hafi tækifæri í samræmi við getu sína og hæfileika.“
Reynslan er góð
– En hvert er framboð af störfum fyrir fólk með takmarkaða starfsgetu? Hver er vilji almenna vinnumarkaðarins, það er fyrirtækja á samkeppnismarkaði, að taka fólk í vinnu og gefa tækifæri? „Atvinna er takmörkuð auðlind í dag og hlutastörf alltof fá. Hins vegar er reynsla þeirra atvinnurekenda sem ráðið hafa fatlað fólk í vinnu góð. Þá er ég auðvitað að meina fólk með alls konar fatlanir; hreyfihamlað, einhverft, sjónskert, þroskahamlað, geðfatlað og svo framvegis,“ segir Þuríður Harpa.
„Stjórnendur hafa hins vegar óskað eftir meiri stuðningi við sig þannig að þeir hafi tengilið að ræða við ef spurningar vakna, til dæmis ef koma þarf betur til móts við starfsfólk eða breyta einhverju. Almenni vinnumarkaðurinn hefur hingað til verið viljugri að ráða fólk með skerta starfsgetu í vinnu heldur en sá opinberi, hvað sem því veldur.“
Vinnumarkaðurinn breytist hratt
Vinnumarkaður og atvinnulíf breytast hratt þessi árin og þar kemur meðal annars til fjórða iðnbyltingin sem svo er kölluð. Mörg störf sem talist hafa sjálfsögð eru nú að detta út og sjálfvirknin að taka þau yfir.
„Þetta er áhyggjuefni og við þurfum að vera vakandi fyrir alls konar nýsköpun. Hugsa út fyrir boxið og taka höndum saman um að skapa fötluðu fólki – og alls konar fólki – rými á vinnumarkaði og þar er nærtækt að benda á Norðurlöndin. Í Danmörku er verið að hverfa frá starfsgetumati og taka þar upp læknisfræðilegt mat. Með því er átt við að heimilislæknir geti ákvarðað að viðkomandi hafi ekki heilsu til að vera í vinnu og áframsent á tryggingalækni sem metur þá viðkomandi til örorku. Að starfsgetumati koma margir sérfræðingar úr ýmsum áttum til að meta hvar viðkomandi stendur varðandi vinnugetu og horfur, en ekki meta rétt einstaklingsins til bóta eða lífeyris. Á þessu tvennu er mikill munur. Þegar kemur að jafn viðkvæmum hópum og öryrkjar sannarlega eru þá er mikilvægt að ákvarðanir byggist á haldgóðri þekkingu en ekki á einföldunum og kreddum,“ segir Þuríður Harpa að síðustu.
Birt hér á heimasíðu ÖBÍ með leyfi Morgunblaðsins/Sigurður Bogi Sævarsson, netfang: sbs@mbl.is