„Það liggur ljóst fyrir að á undanförnum áratugum hefur hallað á tekjulægri hópa í samfélaginu. Meðal þeirra eru öryrkjar og hópar fatlaðra,“ sagði Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fv. ríkisskattstjóri, á málþingi málefnahóps ÖBÍ um kjaramál: Eru öryrkjar fólkið með breiðu bökin? Þar var einnig fjallað um kjaragliðnun og kjör öryrkja og fleira og fleira.
Indriði sagði á málþinginu frá skýrslu sinni og Stefáns Ólafssonar, prófessors, sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu. Þar eru gerðar tillögur um réttlátara skattkerfi.
Þyngsta skattbyrðin hjá lágtekjufólki
Hann benti á að skattbyrði hefði aukist hjá næstum öllum, nema þeim tekjuhæstu, og mest hjá þeim tekjulægstu, undanfarna áratugi. „Þetta hefur skýringar: Fyrst og fremst að persónuafslátturinn hefur ekki hækkað í samræmi við laun og líka að bætur, vaxta- og barnabætur, hafa minnkað stórlega. Í upphafi staðgreiðslukerfisins [árið 1993] fór um fimmta hver króna til baka í formi barna- og vaxtabóta. Önnur ástæða fyrir þessari breytingu er sú skkipting sem gerð var þegar tekjustofnunum var skipt í launatekjur og fjármagnstekjur árið 1997. Það leiddi til þess að skatthlutfallið hjá efstu tekjuhópunum lækkaði. Stór hluti af tekjum þessa hóps eru fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Ég sagði að það mætti ekki bara horfa á tekjuskattinn.“
Indriði spurði hvers vegna skattbyrði hefði aukist. „Aukin skattbyrði, hlutfall opinberra útgjalda hefur vaxið því þjónusta hins opinbera hefur aukist,“ sagði Indriði og nefndi meðal annars heilbrigðisþjónustu og menntun, lengri skólaskyldu o.s.frv.
Aukinn ójöfnuður
„Við getum ekki reiknað með að þessi aukna þjónusta verði aukin án þess að auka skattbyrðina. En það er ójöfn dreifing skattteknanna sem við erum að sjá að hafi aukist. Ástæðurnar eru fyrst og fremst bjögun tekjugrunnsins. Það er að á þessum árum hefur sífellt stærri hluti tekna í samfélaginu komið sem fjármagnstekjur. Þetta hefur haft mikil áhrif vegna þess að skattkerfið byggir á tvískiptingu tekna. En það er líka það að lagabreytingar sem gerðar hafa verið á þessum árum hafa verið „slæmar“,“ sagði Indrði og það mætti margt tína til í þeim efnum.
Pólitísk vanræksla
Hann benti á að upptaka fjármagnstekjuskattsins, í því formi sem gert var hefði ekki verið góð. „Það voru engin rök fyrir því að segja að það sé ástæða til að skattlegja sumar tekjur 10% en aðrar miklu hærra. Það er líka annað sem skiptir þarna máli og það er pólitísk vanræksla. Það er öllum augljóst þar sem er svona stighækkandi tekjuskiptingakerfi, þar er skylda pólítíkusa að fylgjast með og gera breytingar ef ástæða er til. ástæða var fyrir hendi en það var ekki brugðist við,“ sagði Indriði og nefndi bæði aðgerðir og aðgerðarleysi sem væru „pólitískt mótíveraðar“. Á því tímabili sem skattbyrði lágtekjufólks jókst mest hafi verið ríkjandi stefna um „frelsi einstaklingsins“ sem hefði sérstaklega falist í því að sýsla með fé, „Í þeirri trú að það myndi skapa velsæld fyrir alla. En afleiðingin er sú að við, já, sitjum uppi með gallað regluverk,“ sagði Indriði H. Þorláksson. hann fór jafnframt yfir tillögur um hvernig jafna mætti skattbyrðina, meðal annars með hækkuðum fjármagnstekjuskatti og þrepaskiptum tekjuskatti, auk þess sem vaxta- og barnabótakerfin yrðu efld til að jafna skattbyrðina.
Erindi Indriða er í heild hér að neðan. Það er bæði táknmáls- og rittúlkað. Glærur Indriða má nálgast hér.