Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, bendir á að stjórnvöld hafi viðurkennt að búsetuhlutfall hafi verið rangt reiknað í mörg ár. Hann skorar á félags- og barnamálaráðherra að láta verkin tala og hefjast þegar handa við að vinda ofan af þessum alvarlegu mistökum.
Mánudaginn 25. mars var haldinn opinn fundur fyrir fjölmiðlafólk í velferðarnefnd Alþingis og kom Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra fyrir nefndina. Rætt var um búsetuskerðingar og útreikninga á þeim. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í júní 2018 að Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafi reiknað búsetuhlutfall á rangan hátt þannig að um þúsund örorkulífeyrisþegar urðu af lögbundnum greiðslum. Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út að þessi alvarlegu mistök hafi kostað örorkulífeyrisþega samtals um kr. 500 milljónir á síðasta ári. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins hafa haldið því statt og stöðugt fram að ríkinu beri að endurreikna umræddan hóp frá 1. maí 2009 eða frá því að þessir ólöglegu útreikningar hófust. Ráðamenn hafa, í ræðustóli Alþingis, talað um að greitt verði fjögur ár aftur í tímann, en óljóst er frá hvaða tíma á að greiða. Undirritaður er ekki lögfræðingur en finnst þessi lausn að greiða fjögur ár aftur í tímann alveg galin. Það er alveg ljóst að örorkulífeyrisþegar sem fengu skertar greiðslur frá hinu opinbera hafa orðið fyrir talsverðu tjóni, mismiklu í hverju tilfelli fyrir sig. Það er réttlætismál að bæta fólki þennan skaða að fullu en ekki bara að hluta.
Réttar greiðslur hafa enn ekki borist.
Á fyrrnefndum fundi velferðarnefndar Alþingis kom fram hjá félagsmálaráðherra að enn vanti fjárheimild til að greiða út eftir réttum útreikningum og einnig vantar fjárheimild til að leiðrétta ranga útreikninga aftur í tímann. Í máli ráðherra kom fram að TR þurfi eitt ár til að reikna aftur í tímann en samkvæmt áætlun frá TR ná þeir að endurreikna tíu einstaklinga á viku.
Ásmundur nú er bara að bretta upp og framkvæma.
Stjórnvöld hafa viðurkennt að búsetuhlutfall hefur verið rangt reiknað í mörg ár. Nú liggur fyrir að TR muni ekki greiða fólki samkvæmt réttum útreikningum 1. apríl eins og vonir okkar hjá Öryrkjabandalagi Íslands stóðu til. Í ljósi þess leyfir undirritaður sér að setja fram nokkrar tillögur til að lágmarka þann skaða sem fólk hefur orðið fyrir:
- Frá og með 1. maí verður þeim örorkulífeyrisþegum sem sætt hafa röngum útreikningum á búsetuhlutfalli greiddur réttur lífeyrir afturvirkt frá 1. janúar 2019.
- Allir örorkulífeyrisþegar sem fengið hafa rangar greiðslur vegna búsetuútreikninga frá 1. maí 2009 til 31. desember 2018 fái bréf frá TR þar sem þeir eru beðnir afsökunar á þessum mistökum og tilkynnt hvenær þeir eiga von á leiðréttingargreiðslu.
- Tryggja þarf að vaxtagreiðslur valdi ekki tekjuskerðingum á öðrum greiðslum, t.d. vegna krónu á móti krónu skerðingar. Ekki má líta á margra ára leiðréttingu sem tekjur á einu tekjuári. Þetta er hægt að gera með einfaldri lagasetningu.
- Tryggja þarf TR mannafla, tól og tæki þannig að leiðréttingum aftur í ljúki sem fyrst og fólk fái það greitt sem það á inni hjá TR með vöxtum.
Undirritaður skorar á hæstvirtan félags- og barnamálaráðherra að láta verkin tala og hefjast þegar handa við að vinda ofan af þessum alvarlegu mistökum sem nú þegar hafa haft hörmulegar afleiðingar fyrir fjölda einstaklinga.
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.