Á mbl.is hafa undanfarið birst ítarlegar og vel unnar greinar um aðgengismálin. Hér á eftir fara útdrættir úr þeim.
Textun nýtist tugþúsundum
Textun innlends efnis heyrir nánast til undantekninga í íslensku sjónvarpi þrátt fyrir að hún myndi nýtast tugþúsundum landsmanna. Hjörtur Heiðar Jónsson, formaður Heyrnarhjálpar, segir að það sé ótrúlega oft sem fatlaðir gangi á vegg þegar kemur að hlutum sem væri sáraeinfalt að laga.
Tækifæri sem læknar hafa ekki
„Google er þekktasti blindi einstaklingurinn í heiminum og hún lendir í sömu vandræðum og við hin sem erum blind eða sjónskert. Ef stafrænt aðgengi er í lagi þá þarf enginn að vera blindur eða sjónskertur. Hér er tækifæri sem læknar hafa ekki,“ segir Rósa María Hjörvar, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins.
Hún og Baldur Snær Sigurðsson, tækniráðgjafi hjá Blindrafélaginu, segja þetta snúast um að fólk eigi jafnan rétt að upplýsingum. Ef það er skiptir sjónskerðing minna máli. Meðal annars á vinnumarkaði.
Stundum þarf frekari inngrip
Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra og aðstandendur barna með sérþarfir. Á hverju ári leitar þangað fjöldi foreldra þar sem börn þeirra eru ekki að fá þann stuðning í kerfinu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt. Stundum nægir að benda skólum og sveitarfélögum á að brotið sé á rétti barna en stundum þarf frekari inngrip.