Mikilvægar niðurstöður
Þórdís Viborg, verkefnastjóri hjá ÖBÍ, segir að krakkarnir hafi farið yfir ýmislegt sem brennur á þeim, svo sem skólakerfið, tómstundarstarf, íþróttir, aðgengismál og fleira. Hún segir að þrátt fyrir að enn eigi eftir að rýna í niðurstöður þingsins hafi í flestum umræðum komið fram að aðgengi í almennum skilningi væri gjarnan ábótavant, svo sem aðgengi að tómstundarstarfi ýmsu, að félagslífsstarfi á vegum skóla o.fl. Ætlunin sé, þegar niðurstöður þingsins liggja fyrir, að afhenda þær stjórnvöldum, svo raddir ungmennanna fái að heyrast og hugmyndir þeirra að komast leiða sinna.
Þórdís bætir því við að þingið hafi tekist vel og að stefnt sé að því að það verði framvegis árlegur viðburður. Fjallað var um Ungmennaþing ÖBÍ á mbl.is.
Næg verkefni
„Ég er kominn hingað til að láta rödd mína heyrast. Sjá hvað hægt sé að bæta fyrir okkur fatlaða fólkið. Ekki síst hvað hægt sé að gera fyrir aðstandendur fatlaðs fólks. Bæði hvað varðar skólakerfið, aðgengismál og almenna líðan,“ sagði Haukur Hákon Loftsson, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 á málþingsdaginn. „Einnig þarf að virkja aðeins betur félagslegu hliðina. Það hefur oft verið þannig að fatlað fólk er mikið eitt með sjálfu sér og þá skiptir miklu máli að fólk hafi gott bakland til að eiga gott líf,“ sagði Haukur.
Systkini segja frá
Sólveig María og Kristrún Lilja eiga bræður sem eru með raskanir. Þær sögðu að stórefla þyrfti fræðslu um fatlanir í skólum.
„Það þarf að tala við krakka í bekknum ef það er einhver einhverfur þar. Um þa hvernig á að vera í kring um þá,“ sögðu Sólveig María og Kristrún Lilja við fréttastofu Stöðvar 2.
Þarf að virka fyrir unga fólkið
„Það sem ég vonast til að við fáum niðurstöður í er bara hvað þarf að gera til þess að samfélagið og kerfin virki fyrir okkar unga fólk,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Á Ungmennaþinginu komu saman stelpur og strákar 12-18 ára með fatlanir, raskanir eða langvinna sjúkdóma og líka systkini. Setið var í hópum þar sem rætt var um hvað má betur má fara í skólakerfinu, tómstundum, íþróttum og á fleiri sviðum samfélagsins.