Enn er ekki byrjað að leiðrétta ólöglegar búsetuskerðingar til stórs hóps örorkulífeyrisþega. Formaður ÖBÍ hefur skrifað stjórn TR og ýtt á eftir málinu. Stjórn TR fjallaði um erindið og er klofin í málinu. „Meirihluti“ stjórnar hefur svarað ÖBÍ og segir að unnið sé að því að afla fjárheimilda til að leiðrétta hinar ólöglegu skerðingar.
Meira en milljón á dag
Stjórnvöld hafa viðurkennt að stór hópur örorkulífeyrisþega, yfir þúsund manns, séu hlunnfarin um yfir hálfan milljarð króna árlega, með ólöglegum búsetuskerðingum. Þetta byggir á áliti Umboðsmanns Alþingis sem kvað upp úr um málið síðasta sumar. Enn hefur samt sem áður ekkert gerst. Ljóst er að þessi framkvæmd TR á búsetuskerðingum hefur staðið í a.m.k. áratug. Það þýðir að sá hópur örorkulífeyrisþega sem verður fyrir skerðingum vegna búsetu erlendis, eða lífeyrisþegar af erlendum uppruna, hafa orðið af fimm milljörðum króna á þessu tímabili.
Spyrja má hvað frekari dráttur á því að þetta verði leiðrétt muni kosta skattgreiðendur í dráttarvöxtum?
Útgerðin yrði ekki látin bíða
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, skrifaði stjórn TR til að reka á eftir leiðréttingu. Hún benti réttilega á að ekkert á að vera því til fyrirstöðu að hefja verkið nú þegar, enda liggur allt fyrir sem til þarf. Hún hefur einnig bent á þennan óþolandi mun á Jóni og séra Jóni sem við upplifum allt of oft:
„Ég er ansi hrædd um að til dæmis útgerðin í landinu þyrfti ekki að bíða svona lengi eftir peningum sem hún ætti inni hjá ríkinu eins og reyndin er í okkar tilviki.“
Nú hefur borist svar frá „meirihluta stjórnar“ TR þar sem segir að aðgerðaráætlun liggi fyrir og að unnið sé að því að fá fjárheimildir til verksins. Þar sem bréfið er sett fram í nafni „meirihluta“ er ljóst að stjórn TR er klofin í þessu máli og ljóst að ekki eru allir stjórnarmenn sannfærðir um gildi þess sem „meirihlutinn“ heldur fram. Í bréfi „meirihlutans“ er einnig reynt að véfengja staðreyndir sem formaður ÖBÍ bendir á í bréfi sínu. Framkvæmd TR á búsetuskerðingum hefur nefnilega ekki verið óumdeild í gegnum árin, enda þótt stofnunin reyni með hártogunum að halda öðru fram.
Hvað stoppar?
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, hefur, eins og „meirihluti“ stjórnar TR, sagt í ræðustóli Alþingis að verið sé að afla fjárheimilda. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur hins vegar sagt að um lögbundin réttindi sé að ræða, og ekki þurfi sérstakar fjárheimildir til þess að leiðrétta þessi ósköp.
Eins og skýrt má vera af orðum fjármálaráðherra, ætti stjórn TR ekki að þurfa að verja frekari tíma í að afla fjárheimilda. Það ætti því að vera frekari staðfesting á því að ekkert sé því til fyrirstöðu að hefja nú þegar útgreiðslur á grundvelli nýrra útreikninga.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, bendir hins vegar á fjármálaráðherrann og sagði í ræðustóli Alþingis, að það væri hann sem stoppaði málið.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra heldur utan um ríkisbudduna og hann hreinlega ætlar ekki að opna hana fyrir öryrkjum. … Þetta er algerlega ólíðandi framkoma við þennan fátækasta hóp samfélagsins. Ég fer fram á að örorkulífeyrisbætur, örorkulífeyrir, verði greiddar samkvæmt lögum — og það strax!“
Hártoganir TR
„Meirihluti stjórnar“ ver megninu af bréfi sínu í að tortryggja erindi formanns ÖBÍ. Gefið er í skyn að framkvæmd stofnunarinnar hafi í reynd verið óumdeild. Eins og áður hefur komið fram, stenst það enga skoðun. Þetta eru í sem allra stystu máli hártoganir. Formaður ÖBÍ var skýr um þetta í bréfi sínu að framsetning og fullyrðingar TR væri villandi. Í þeim úrskurðum sem nefndir voru, hefði verið slegið á putta TR við framkvæmd búsetuskerðinga. Nánar verður fjallað um þann þátt málsins hér á vef ÖBÍ innan tíðar.