Í dag er ég döpur og sorgmædd vegna þjóðar sem enn hefur ekki náð þeim þroska að virða samborgara sína, fagna margbreytileikanum og sjá tækifærin sem felast í því að valdefla alla einstaklinga, ég er döpur vegna smáþjóðar sem nú fagnar 100 ára fullveldi, en elur enn á fordómum, jaðarsetningu og hatursorðræðu.
Sú orðræða sem nú hefur verið opinberuð kemur okkur fötluðu fólki ekki alveg á óvart. Við höfum í árhundruð búið við smættun og jaðarsetningu, búið við að eiga ekki rétt til náms, ekki rétt til aðgengis, ekki rétt til heimilis né réttar til að standa jafnfætis öðrum íbúum landsins. Við erum í dag neydd til framfærslu sem er skammarleg og til þess ætluð að fólk beri kinnroða vegna.
Við höfum lagt gríðarmikla vinnu í að fá alþingismenn og ráðherra til að hækka framfærslu sem nú er langt undir atvinnuleysisbótum, en höfum uppskorið hroka, kúgun og valdbeitingu. Fatlað fólk spyr nú hvort ástæðan fyrir lágri framfærslu sé vegna fordóma alþingismanna gagnvart fötluðu fólki? Sú fyrirlitning á fötluðu fólki sem hefur komið fram í orðum hluta þingheims, sýnir að þingmennirnir eru með öllu ófærir um að gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning. Þeir verða að taka pokann sinn. Við eigum betra skilið!
Aðrir þingmenn þurfa sömuleiðis að sýna það í verki að sami hugsunarháttur ráði ekki gerðum þeirra. Fatlað fólk á rétt á lífi til jafns við aðra, rétt á virðingu og rétt á því að geta framfleitt sér. Í dag er fatlað fólk á lægstu framfærslu sem um getur í Íslensku þjóðfélagi, smánað og útskúfað vegna vangetu, viljaleysis og aðgerðarleysis stjórnmálamanna til að skapa öllum jöfn tækifæri.
Ég geri orð Freyju Haraldsdóttur sem er einn okkar skarpasti og mesti frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks, að mínum þegar ég segi: Það er sérstaklega hættulegt þegar fólk í valdastöðum viðhefur hatursorðræðu, vegna þess að það setur fordæmi og hefur vald til þess að normalisera orðræðu og ofbeldismenningu. Hatursorðræðan sem við höfum orðið vitni að afhjúpar viðhorf valdhafa sem við höfum kosið og treyst til þess að reka samfélag okkar og til að taka mikilvægar ákvarðanir um hagi okkar.
Önnur baráttukona okkar, Embla Ágústdóttir orðar þetta vel þegar hún segir: Hættum að kenna líflausu kerfi um vanda samfélagsins og horfumst í augu við að vandinn liggur í viðhorfum og djúpstæðum hugmyndum um mennsku sem meðal annars lita ákvarðanir og gjörðir valdamesta fólks landsins. Ég hef í samskiptum mínum við stjórnvöld lagt inn það veganesti að þau eigi að hafa mannúð, velferð og virðingu fyrir öllu fólki að leiðarljósi í störfum sínum. Ég tel fulla þörf á að beina þeim orðum til þingheims alls, hér í dag.
Fyrir hönd langveiks og fatlaðs fólks óska ég eftir breyttum viðhorfum og alvöru aðgerðum til þess að jafna og bæta hag þess fólks sem enn er jaðarsett og beitt háðung af sumu okkar valdamesta fólki.
Á hundrað ára fullveldi íslenskrar þjóðar skulum við sammælast um að sú orðræða sem hér hefur viðgengist hverfi og leggjast á árar, öll sem eitt um að skapa betra samfélag fyrir alla en ekki bara fáa, þannig að á 110 ára afmæli íslensks fullveldis verðum við öll stolt af því að búa við raunveruleg mannréttindi á Íslandi.
Við krefjumst virðingar af hálfu stjórnvalda og mannréttinda til að eiga líf til jafns við aðra! Takk