Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi, fjallar um skatta og skerðingar og afkomu lágtekjufólks, á sameiginlegum fundi Eflingar og Öryrkjabandalags Íslands, í Gerðubergi, 20. október 2018.
Stefán fjallaði um hvernig skattbyrði á lágar tekjur hefur farið vaxandi allt frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Hann benti jafnframt á ójafnvægi í skattkerfinu, þar sem fjármagnstekjur væru skattlagðar mun lægra en launatekjur eða bætur almannatrygginga. Sá skattaafsláttur sem efnafólki væri gefinn með lágri skattprósentu, fæli í sér meiri skattalega ívilnun en sem nemur öllum barna- og vaxtabótum í landinu. Hann lagði til að lágmarkslaun yrðu tekjuskattslaus, líkt og framundir síðustu aldamót. Þetta má meðal annars heyra í upptöku af erindi hans hér að neðan, og einnig með því að líta yfir glærur Stefáns.
ÖBÍ vill koma á framfæri athugasemd við tölur frá Tryggingastofnun ríkisins sem Stefán vitnar til á einum stað. Staðreyndin er sú að langt í frá allir örorkulífeyrisþegar ná 300 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt. Raunar eru þeir innan við þriðjungur örorkulífeyrisþega, enda þótt ráðamenn og TR kunni að halda öðru fram og veita misvísandi upplýsingar. ÖBÍ hefur fjallað ítarlega um þetta mál.