„Þessi hópur er með lægstu tekjur allra í dag og því eru þetta gríðarlega háar fjárhæðir fyrir þetta fólk,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands í samtali við Fréttablaðið á laugardag. Þar er fjallað um þá staðreynd að lífeyrisþegar fá hátt í fjögurra milljarða króna reikning við árlegan endurútreikning Tryggingastofnunar ríkisins.
„Það liggur við að segja að verið sé að gefa skotleyfi á lífeyrisþega hvað þetta varðar. Við höfum alltaf viljað að þetta yrði reiknað mánaðarlega til að koma í veg fyrir svona mistök,“ segir Þuríður Harpa.
Lífeyrisréttindi eru tekjutengd og voru réttindi fyrir árið 2017 reiknuð út frá áætluðum árstekjum í tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar bera ábyrgð á. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur ársins lágu fyrir í staðfestum skattframtölum voru lífeyrisréttindi endurreiknuð á grundvelli þeirra. Lífeyrisþegar sem fengu greitt umfram rétt sinn eru þá í skuld við stofnunina sem kemur til innheimtu þann 1. september næstkomandi, segir í umfjöllun Fréttablaðsins.
Alls fengu 44 prósent lífeyrisþega ofgreitt og sama hlutfall fékk of lítið greitt. Einungis tólf prósent lífeyrisþega fengu réttar greiðslur frá stofnuninni. Þeir einstaklingar sem fengu ofgreitt frá stofnuninni þurfa að greiða til baka að meðaltali um 13.000 krónur á mánuði.
Þeir einstaklingar sem fengu vangreiddan lífeyri fá endurgreidda um 2,6 milljarða króna um næstu mánaðamót.
Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, segir í viðtali við Fréttablaðið að einmitt sé mikilvægt að barist sé fyrir því að réttur til lífeyris hjá TR verði reiknaður mánaðarlega. „Við þurfum að eiga samtalið við ráðherra til að fá þessu breytt. Það er krafa okkar að réttur okkar sé reiknaður í hverjum mánuði en einmitt þannig minnkum við bakreikninga sem eru afar erfiðir fyrir okkar skjólstæðinga,“ segir Bergur Þorri.
Lífeyrisþegum hjá TR hefur fjölgað mikið síðustu ár og hefur heildarfjárhæð lífeyris hækkað sem því nemur. Lífeyrisþegar TR geta sótt um niðurfellingu á skuld sinni en ströng skilyrði þarf að uppfylla til að sleppa undan henni, segir í umfjöllun blaðsins.