Píratar svara spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.
1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir.
Já, til þess að raungera sameinandi skóla (e. Inclusive society) sem sumir kalla skóla ,,án aðgreiningar” þarf meiri stuðning við börnin. Sameinandi skóli hefur aldrei verið raungerður eins og mannréttindaskuldbindingar okkar kveða á um, en við viljum að svo verði svo það verði raunverulegur valkostur. Við viljum að nýtt fjármagn fari í uppbyggingu sameinandi skóla og nýju hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frekar en í gömlu hugmyndafræðina um stofnanir. Það snýst ekki um að við viljum endilega loka sérskólum heldur um að sameinandi skóli sé raunverulegur valkostur.
2. Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?
Við krefjumst þess að þjónusta á vegum sveitarfélagsins sé aðgengileg fötluðu fólki og stefnum á að fjölga íbúðum í félagsbústöðum mikið. Þá viljum við leggja áherslu á nýbyggingar, þar sem tekið er tillit til aðgengis, en viljum líka að húsnæði sem ekki er í dag aðgengilegt verði aðlagað og gert aðgengilegt þar sem það er mögulegt.
3. Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?
Við höfum það í okkar stefnu að hækka tekjuviðmið við útdeilingu sérstakra húsnæðisbóta og að lengja tekjubilið milli hámarks og lágmarks, til að draga úr skerðingum við auknar tekjur. Tekjuviðmiðið er allt of lágt, sérstaklega miðað við núverandi húsnæðisverð. Við viljum hvetja fólk til að auka tekjur sínar, ekki letja það og skapa með því fátækrargildrur.
4. Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Já, við höfum byggt stefnuna okkar um málefni fatlaðs fólks á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sérstaklega höfum við gengið út frá greinunum sem fjalla um réttinn til sjálfstæðs lífs, mikilvægi samráðs og sameinandi samfélag (e. Inclusive society).
5. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?
Okkar stefna er að framkvæma skuli gagngera úttekt á ferðaþjónustu fatlaðs fólks með aðkomu hagsmunasamtaka þess og sérfræðinga. Í framhaldi af því skal starfshópi falið að framkvæma endurskoðun á fyrirkomulagi hennar til að tryggja að hún geti staðið undir hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.
6. Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?
Við viljum fjölga NPA-samningum í takt við okkar mannréttindaskuldbindingar okkar og gefum ekki afslátt af né setjum kvóta á mannréttindi. Við viljum að beingreiðslusamningum sé markvisst breytt í NPA-samninga.
7. Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?
Á núverandi kjörtímabili hafa Píratar komið á fót rafrænni þjónustumiðstöð í Reykjavík. Fyrsta verkefnið er að rafvæða alla stjórnsýslu í kringum velferðarkerfið og endurhugsa alla ferla út frá notendavænni hönnun og þörfum notandans. Á þennan hátt munum við stytta boðleiðir og einfalda ferla og gera allt kerfið gagnsærra, skilvirkara og þægilegra svo að fólk geti með einfaldari hætti afgreitt sjálft sig, séð hvar umsóknir eru í kerfinu og aflað sér upplýsinga. ,,Computer says no” – no more. Tökum frekar upp ,,Dominos’’ leiðina.
8. Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?
Við viljum kaupa mikið af félagslegu húsnæði og gera mjög vel í þeim efnum. Við viljum einnig að það verði hætt að nota lágmarksstigafjölda við mat á félagslegum aðstæðum við útdeilingu félagslegs húsnæðis og sérstaks húsnæðisstuðnings. Það á að vera nóg að vera með lágar tekjur til að geta fengið aðstoð og félagslegt húsnæði. Núverandi mat er ógagnsætt og hlutlægt og kvarðinn ekki aðgengilegur. Einnig bendum við á rafvæðingu ferlanna sem nefndir voru hér fyrir ofan við að gera úthlutun skilvirkari.
9. Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?
Við erum á móti skilyrðingum og viljum gera kerfið sveigjanlegra og hvetjandi. Núverandi kerfi er letjandi, reynir að troða einstaklingum í fyrirframskilgreinda kassa og ýtir fólki niður frekar en að hjálpa því. Það er óboðlegt og þessu verður að breyta. Við ætlum að afnema tekjutengingu við maka við útdeilingu fjárhagsaðstoðar og viljum afnema fátæktargildrur á borð við krónu fyrir krónu tekjutengingu.
10. Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?
Píratar leggja áherslu á félagslegar forvarnir og sálfræðistuðning og vilja bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum og hafa aðgengileg stuðningsteymi með til dæmis sálfræðingum og félagsráðgjöfum.
11. Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?
Skóli án aðgreiningar eða það sem við köllum sameinandi skóli (vegna þess að við teljum það betri þýðingu á Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks) hefur aldrei verið raungerður á Íslandi og því verður að breyta. Gagnrýnin sem hefur komið hefur verið byggð á ófullnægjandi framkvæmd, en því þarf að breyta. Sameinandi skóli verður að vera raunverulegur valkostur svo að börnum líði vel í skólanum og blómstri. Við höfum þó ekki talað fyrir því að loka endilega sérskólum heldur þarf að byrja á því að hitt sé raunverulegur valkostur.
12. Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!
Já. Við viljum að þeir sem þurfa og vilja NPA fái NPA.
13. Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?
Já, það skiptir máli. Það er mikilvægt að vinna gegn félagslegri einangrun fatlaðs fólks og öryrkja en einnig gegn fordómum almennings. Píratar telja eina leið vera að raungera sameinandi samfélag og bæta aðgengi fatlaðs fólks og öryrkja að samfélaginu vegna þess að fordómar byggjast oft á fáfræði. Það þarf að auka jafnréttisfræðslu í skólum og samfélaginu öllu.