Skip to main content
Frétt

Skilið skerðingunum!

By 1. maí 2018No Comments

Fjölmenni var í kröfugöngunni niður Laugaveginn í dag, í köflóttu veðri. Þá hélt Öryrkjabandalagið vel heppnaðan viðburð á Lækjartorgi þar sem sýnt var hvernig spilað er með fólk.

Hættið að spila með fólk!

Yfirskrift gönguhóps Öryrkjabandalagsins í göngunni var Skilið skerðingunum! – Hættið að spila með fólk! Í þessum orðum er vísað til þess hvernig öryrkjum einum er refsað grimmilega fyrir að reyna að afla sér tekna með því kerfisbundna ofbeldi sem krónu-á-móti-krónu skerðingarnar sannarlega eru.

Öryrkjar heyja erfiða kjarabaráttu rétt eins og láglaunafólk og fjölmörg úr okkar hópi glíma við fátækt. Skerðingarnar hafa þau áhrif að dæma fólk til erfiðleika og örbirgðar. Fólk festist í fátæktargildru.

Borðspilið Skerðing – ömurlegt spil fyrir alla fjölskylduna, er leið til að sýna þennan veruleika. Spilið er byggt á Matador spilinu, spilamenn fara í hring eftir teningakasti og þurfa að fara eftir fyrirmælum á þeim reitum sem lent er á. Oftar en ekki þarf fólk að Freista ógæfunnar. Þetta er spil sem ekki er hægt að vinna. Allar líkur eru á því að lenda á reitnum Fátæktargildran og festast þar. 

Í dag lagði Öryrkjabandalagið áherslu á að sýna að í reynd er verið að spila með fólk. Sjálfboðaliðar gerðust spilamenn á stóru spilaborði sem komið var fyrir á Lækjartorgi, þar sem kröfugangan fór hjá. Við fengum að sjá hvernig alvöru fólk þurfti, eftir kasti teninga, að leita til ýmissa stofnana, jafnvel taka smálán, áður en hið óumflýjanlega blasti við: Fátæktargildran.

Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum. 

 

 

Ógæfunnar freistað

 

Formaður ÖBÍ