Skip to main content
Frétt

Bætt aðgengi að hleðslustöðvum

By 11. apríl 2018No Comments

Orka náttúrunnar vinnur að því að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra að hlöðum fyrirtækisins, sem nú eru 31 talsins, hringinn í kringum landið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ON. Á dögunum var tekin í notkun ný hraðhleðsla í hlöðunni við Bæjarháls 1, þar sem ON er til húsa. Þar reis fyrsta hlaða ON vorið 2014 og var hún ein þeirra þar sem aðgengi var ófullnægjandi.

Fram kemur í tilkynningu ON að Guðjón Sigurðsson, starfsmaður Veitna systurfyrirtækis ON og ötull baráttumaður í aðgengismálum, hafi verið fyrstur til að nota nýju hraðhleðsluna. Við þetta tækifæri þakkaði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, Gauja fyrir að halda fólki við efnið í aðgengismálum. „Hlöðurnar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri og margt að læra. Ábendingar fólks eru okkur því mikilvægar og við tökum mark á þeim,“ er haft eftir Bjarna Má í tilkynningunni.

Komið til móts við réttmætar ábendingar

Í tilkynningunni segir að ON hafi reist hverja hlöðuna á fætur annarri síðasta árið. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfbjargar og gjaldkeri ÖBÍ, hafi gert ON þann heiður að taka hlöðuna á Hvolsvelli í notkun í september síðastliðnum. Aukinn þungi hafi í kjölfarið færst í aðgengismálin. Gætt hafi verið að tækifærum fatlaðs fólks við allar þær hlöður sem opnaðar hafa verið síðan.

ON telst til að aðgengi sé í lagi við meirihluta hlaðanna en vorið og sumarið verði nýtt til að bæta úr þar sem þarf, segir í tilkynningunni.