Skip to main content
Frétt

Ávísun á fátækt og eymd

By 5. apríl 2018No Comments

„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun halda við og búa til félagsleg vandamál, frekar en að færa fram lausnir. Það er ekki verið að græða sár, sem við þurfum svo mjög á að halda, heldur er þetta eins og að setja plástur yfir gröft,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, um fyrstu viðbrögð bandalagsins við frumvarpi til fjármálaáætlunar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar kynntu í gær.

Hún bendir á að í frumvarpinu felast ekki aðgerðir til að tryggja öryrkjum mannsæmandi afkomu. „Það er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna fjölgunar öryrkja, en ekki verið að ganga fram til að bæta afkomu þeirra sem núna þurfa að reiða sig á almannatryggingarnar.“

Að auki hafi lækkun á tekjuskattsprósentu lítið að segja fyrir fólk með lægstar tekjur. Það hefði miklu jákvæðari áhrif á þau sem verst eru sett í samfélaginu að hækka persónuafsláttinn. „Það væri aðgerð sem nýttist best þeim sem minnst hafa og líka auka jöfnuð, sem er hugtak sem forsætisráherra hefur notað oftar en ég hef tölu á.“

Öryrkjabandalag Íslands hefur í mörg ár barist hart fyrir því að óréttlátar krónu-á-móti-krónu skerðingar verði afnumdar. Gert er ráð fyrir að tekið verði á málinu í fjármálaáætlun, „en þetta þarf að gerast núna. Það er verið að halda fólki niðri, föstu í fátæktargildru, með kerfisbundnu ofbeldi. Því verður að ljúka strax. Það sjá það allir að það gengur ekki að einum þjóðfélagshópi sé beinlínis refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Þetta eru aðgerðir sem ekki þola bið,“ segir Þuríður Harpa.

Viðbót í heilbrigðiskerfið, átak í geðheilbrigðismálum og viðleitni til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga séu jákvæðir þættir. „En ég spyr, þótt sjúklingagjöld verði lækkuð, hvað þýðir það fyrir fólk sem ekki hefur efni á þeim hvort eð er?“

Samtal við stjórnvöld um breytingar á almannatryggingum sé framundan. „Þær viðræður sem við erum að fara í þurfa að vera raunhæfar. Við þurfum að gefa okkur góðan tíma til að móta nýtt kerfi sem verður öllum til heilla. Við þurfum hins vegar ekki að bíða eftir því samtali til að afnema óréttlátar skerðingar og tryggja fólki mannsæmandi afkomu. Það er hægt að gera það strax í dag.“

Fjármálaáætlunin fer nú til umfjöllunar í Alþingi. „Boltinn er hjá þingmönnum. Ég skora á þá að standa við yfirlýsingar sínar um aðgerðir gegn fátækt og fyrir réttlæti og því að fólk geti lifað hér með mannsæmandi hætti.“

Hún segir að Öryrkjabandalagið muni fara ítarlega yfir frumvarp til fjármálaáætlunar 2019-2023 og skila Alþingi umsögn um málið.