Skip to main content
Frétt

„Hugsuður sem fólk leit upp til“

By 14. mars 2018No Comments

„Hakwing var frábær fyrirmynd og sérstök hvatning um að maður getur ansi margt þótt líkaminn hafi ekki fulla hreyfigetu. Hawking var andlit vísinda og hugsuður sem fólk leit upp til,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins í samtali við vef ÖBÍ.

Breski eðlisfræðingurinn Stephen Hawking er látinn, 76 ára að aldri. Hann lagði stund á kennilega eðlisfræði og stjörnufræði og var margverðlaunaður fyrir störf sín. Stór þáttur í vísindastörfum hans var að skoða uppruna og formgerð alheimsins. Hann samdi fjölda rita um alheiminn, en eitt hið þekktasta er bókin Saga tímans.
 
Hawking hefur einnig lagt sig fram um að setja niðurstöður sínar og kenningar fram á aðgengilegan og skýran hátt fyrir almenning. Þessi bók, sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út á íslensku, frægasta verk hans af þeim toga. Saga tímans hefur notið stöðugra vinsælda um allan heim og er íslenska þýðingin raunar uppseld.
 

Hawking fæddist 8. janúar 1942. Hann varði stærstum hluta ævi sinnar í hjólastól og tjáði hann sig að mestu með aðstoð talgervils. Hann fór að finna fyrir óþægindum um tvítugt, og var svo greindur með Lou Gehrig’s sjúkdóminn 21 árs gamall. Sjúkdómurinn veldur lömun. Í umfjöllun Rúv segir að hann hafi eitt sinn skrifað að hann væri oft spurður að því hvernig honum þætti að vera með sjúkdóminn. Hann sagðist ekki velta því mikið fyrir sér, hann reyndi að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er.

Sævar Helgi segir að Hawking hafi verið framúrskarandi vísindamaður. Hann hafi til að mynda uppgötvað að svarthol geti glatað orku og gufað upp. Þetta orkutap er nefnt eftir honum og kallað Hawking-geislun. „Honum var ekkert óviðkomandi og talaði til dæmis fyrir mikilvægi þess að hugsa vel um plánetuna okkar. Og það sem mér finnst mest um vert er að Hawking var frábær vísindamiðlari og kveikti áhuga margra á vísindum,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.