„Hakwing var frábær fyrirmynd og sérstök hvatning um að maður getur ansi margt þótt líkaminn hafi ekki fulla hreyfigetu. Hawking var andlit vísinda og hugsuður sem fólk leit upp til,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins í samtali við vef ÖBÍ.
Hawking fæddist 8. janúar 1942. Hann varði stærstum hluta ævi sinnar í hjólastól og tjáði hann sig að mestu með aðstoð talgervils. Hann fór að finna fyrir óþægindum um tvítugt, og var svo greindur með Lou Gehrig’s sjúkdóminn 21 árs gamall. Sjúkdómurinn veldur lömun. Í umfjöllun Rúv segir að hann hafi eitt sinn skrifað að hann væri oft spurður að því hvernig honum þætti að vera með sjúkdóminn. Hann sagðist ekki velta því mikið fyrir sér, hann reyndi að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er.
Sævar Helgi segir að Hawking hafi verið framúrskarandi vísindamaður. Hann hafi til að mynda uppgötvað að svarthol geti glatað orku og gufað upp. Þetta orkutap er nefnt eftir honum og kallað Hawking-geislun. „Honum var ekkert óviðkomandi og talaði til dæmis fyrir mikilvægi þess að hugsa vel um plánetuna okkar. Og það sem mér finnst mest um vert er að Hawking var frábær vísindamiðlari og kveikti áhuga margra á vísindum,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.