Nýjar upplýsingar um stóraukna sjúklingaskatta í heilbrigðiskerfinu eru grafalvarlegar að mati Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ.
Fréttastofa Rúv greinir frá því að fyrstu sjö mánuðina eftir að nýtt kerfi tók gildi, hafa öryrkjar þurft að greiða 16 prósentum meira úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu en áður. Þak var sett á sjúklingaskatta með nýja kerfinu. Þakið var 46 þúsund krónur á ári fyrir börn, ellilífeyrisþega og öryrkja. 70 þúsund fyrir aðra. Kostnaður aldraðra hækkaði sömuleiðis gríðarlega. Hjá öðrum hafa greiðslurnar lækkað. Sjúkratryggingar Íslands tóku þessar tölur saman fyrir fréttastofu Rúv.
Þetta kemur á óvart þar sem yfirlýst markmið kerfisins voru að viðbótargreiðslur langveikra og lífeyrisþega myndu lækka til muna, hefur Rúv eftir Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni ÖBÍ.
Það er yfirlýst markmið ÖBÍ að fólk eigi ekki að þurfa að taka fram veskið til að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. ÖBÍ varaði enda við því að þak á sjúklingaskatta væri of hátt og gæti orðið til þess að fólk leitaði síður til læknis.
Málið er grafalvarlegt að mati Þuríðar Hörpu. „Ef þetta er í raun og veru niðurstaðan þá held ég að það þurfi að bregðast við, og það ekki seinna en í gær, að reyna að lækka þetta. Þetta eru hóparnir í okkar samfélagi sama hafa örugglega minnst á milli handanna,“ segir hún í samtali við fréttastofu RÚV.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir í samtali við Rúv að nýja kerfið hefði átt að gera öllum kleift að fara til læknis og fá nauðsynlega þjónustu. „Við munum bara taka upp þetta mál og óska eftir viðtali við heilbrigðisráðherra því ég sé ekki annað en að endurskoðun sé nauðsynleg.“