Skip to main content
Frétt

Loforð um réttlátt kerfi

By 24. janúar 2018No Comments

„Það að hafa enn þá krónu á móti krónu skerðingu þegar kemur að öryrkjum er okkur til skammar. Við skulum taka okkur á. Við skulum heita okkur því að sameinast um það verkefni að bæta kjör öryrkja áður en við förum héðan í vor,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis umræðum um störf þingsins í dag.

Ræða Óla Björns var svona í heild:

„Herra forseti. Nýjar tölur frá Hagstofunni um þróun launa og kaupmáttar vöktu athygli mína þannig að ég fór að fara aftur í tímann og komst að því að á síðustu fimm árum hefur kaupmáttur launa aukist um nær 26%, þannig að launafólk hefur sannarlega fengið töluverðar kjarabætur á undanförnum árum. Síðastliðinn föstudag var þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í heimsókn hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Þar var tekið á móti okkur með kostum en forráðamenn Öryrkjabandalagsins fluttu mál sitt af mikilli festu, öfgalaust, en skilaboðin voru skýr. Ég hef áður sagt, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í þessum ræðustól, að það er okkur í þingsal til vansa að við skulum ekki hafa náð að endurskoða tryggingakerfi öryrkja eins og við ætluðum að gera, að við skulum enn þá búa þannig um hnútana að hér sé kerfi þar sem fólki er refsað fyrir minnstu viðleitni til að bæta hag sinn. Það að hafa enn þá krónu á móti krónu skerðingu þegar kemur að öryrkjum er okkur til skammar. Við skulum taka okkur á.

Við skulum heita okkur því að sameinast um það verkefni að bæta kjör öryrkja áður en við förum héðan í vor. Við skulum sníða kerfi þannig að það sé einfalt, réttlátt og umfram allt að við hættum að refsa fólki þegar (Forseti hringir.) það reynir að bæta hag sinn. Þetta er loforð sem við eigum að gefa hvert öðru og við eigum að gefa þeim sem lakast standa.“