Mælt var fyrir frumvarpi um að afnema „krónu-á-móti-krónu“ skerðingar á Alþingi í dag. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis fer fyrir málinu. „Með frumvarpinu er lagt til að sérstök uppbót til framfærslu verði felld úr gildi og fjárhæð hennar færð undir ákvæði um tekjutryggingu,“ sagði Halldóra þegar hún mælti fyrir frumvarpinu.
Hún bætti því við að þar með „yrði stuðlað að minni skerðingu fyrir lífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegi kann að fá en slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefndar „krónu á móti krónu“ skerðing. Það gerir það að verkum að fyrir ákveðna upphæð tekna skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því tekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir atvinnuþátttöku hans. Það að ein gerð tekna eyði annarri gerð að öllu leyti hefur mjög letjandi áhrif á atvinnuþátttöku lífeyrisþega.“
Brýnt baráttumál ÖBÍ
Öryrkjabandalag Íslands hefur lengi barist fyrir því að verulega verði dregið úr tekjuskerðinum í almannatryggingakerfinu og hefur lagt sérstaka áherslu á að „krónu-á-móti-krónu“ skerðingar verði afnumdar nú þegar (sjá t.d. hér).
Sérstök framfærsluuppbót er útfærð á þann hátt að allar staðgreiðsluskyldar tekjur skerða hana, „krónu-á-móti-krónu“. Aðrar reglur gilda því um sérstaka framfærsluuppbót en aðra bótaflokka almannatrygginga. Áhrif hennar hafa meðal annars komið sér illa fyrir fólk með atvinnu- og eða lífeyristekjur og einstaklinga sem fá mæðra- eða feðralaun.
Þessar 100% skerðingar gera það að verkum að fólk er í raun fast í fátæktargildru og getur ekki bætt lífskjör sín, þrátt fyrir að hafa einhverjar aðrar tekjur.
Spurning um réttlæti
Halldóra Mogensen benti á að sams konar skerðing hefði áður verið við lýði hjá ellilífeyrisþegum. Hún hafi hins vegar verið afnumin með lögum árið 2016. „Að gera slíkt hið sama fyrir örorkulífeyrisþega er réttlætismál óháð hugmyndum um starfsgetumat.“
Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, sagði það meginreglu hjá Íslendingum að auka við sig vinnu til að reyna að bæta sinn hag. Skerðingar í almannatryggingakerfinu vinni gegn því að það sé gerlegt. „Þessi skerðingarárátta hefur kannski náð hámarki sínu,“ sagði hann þar sem „krónu-á-móti-krónu“ skerðingar eigi í hlut.
„Ég tel að hér sé réttlætismál að ræða og leyfi mér að láta í ljósi þá von og ósk að málið fái þann stuðning hér á Alþingi sem það verðskuldar,“ sagði Ólafur Ísleifsson.
Stuðningur á Alþingi
Umtalsverður stuðningur virðist vera við afnám „krónu-á-móti-krónu“ skerðinga á Alþingi. Þannig hafa til að mynda bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Óli Björn Kárason, Sjálfstæðisflokki og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, talað fyrir því (sjá t.d. hér).
Neikvæð áhrif
Halldóra Mogensen benti á það í framsöguræðu sinni að frumvarpið gæti haft neikvæð áhrif á þann hóp örorkulífeyrisþega sem eru með skertar örorkugreiðslur vegna búsetu.„ Þetta er fámennur hópur sem er í mjög viðkvæmri stöðu og er það ekki ætlun flytjenda að skerða laun þeirra frekar, þvert á móti þarf að tryggja þessum hóp viðunandi framfærslu. Það hafa þegar komið fram tillögur að úrbótum og legg ég því til að þær tillögur verði ræddar við meðferð málsins í nefndinni og að fundin verði lausn sem tryggir að framangreindur hópur beri ekki skarðan hlut frá borði.“
Málinu var vísað til umfjöllunar í velferðarnefnd eftir umræðu dagsins.