Skip to main content
Frétt

Fátækt er pólitísk ákvörðun

By 23. janúar 2018No Comments

„Núna hafa stjórnvöld tækifæri til að sýna að það er alvara á bak við orðin. Við leyfum okkur að vera bjartsýn og vongóð í upphafi nýs árs,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjarbandalags Íslands í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið núna um helgina.

Hún segir þar frá baráttumálum Öryrkjabandalagsins, kjörum og aðstæðum fólks og kemur inn á samtalið og samráðið við stjórnvöld um breytingar í málum fatlaðs fólks. Hún nefnir skerðingar, króna á móti krónu, hækkun á lífeyri, NPA, Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, persónuafslátt og fleira. Hún bendir t.d. á að miðgildi heildartekna örorkulífeyrisþega sé vel undir 300 þúsund krónum. Þessu verði að breyta.

„Það er með þessi mál sem við göngum til samtalsins við stjórnvöld. Það er jákvætt að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boði til samtals og samráðs um almannatryggingarnar og aðbúnað okkar fólks,“ segir Þuríður.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir„Í mínum huga er það að halda fólki í fátækt pólitískt val, ný ríkisstjórn ætti að beita öllum ráðum til að rétta hlut þeirra sem verst hafa það í þessu landi og það er ekki gert með því að leggja meiri skatta og skerðingar á þá sem minnst hafa, sem virðist þó hafa verið raunin hingað til.“ 

Jákvæð viðbrögð þingmanna

Þuríður upplýsir jafnframt í viðtalinu að Öryrkjarbandalagið hafi boðið þingflokkum á Alþingi til samtals og taki þannig ákveðið frumkvæði í samskiptum við stjórnvöld. „Við höfum nú þegar hitt þingmenn tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Pírata til að ræða um okkar brýnustu og mikilvægustu mál og skýrt fyrir þeim hvað er í húfi fyrir okkar fólk. Og það er gaman að segja frá því að við höfum fundið skýran vilja til að gera miklu betur í þessum málum en hingað til.“