Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs var gert ráð fyrir því að 14 prósent öryrkja fengju uppfærslu á lífeyri frá Tryggingastofnun sem hefði í för með sér að heildartekjur þeirra geta náð upp í um 300 þúsund krónum á mánuði, sem eru lágmarkslaun frá næstu áramótum. Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur, eftir fyrstu umræðu um frumvarpið, lagt til breytta nálgun, sem felur í sér að 29 prósent öryrkja fá þessa viðbót. Áætlað er að þessi leið kosti ríkissjóð 166 milljónir króna umfram það sem áætlað var í frumvarpinu.
Forysta Öryrkjabandalags Íslands hefur lagt nótt við dag, frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram, til að sýna stjórnvöldum og þingmönnum fram á, að bæta verði kjör öryrkja nú þegar. Kaupmáttur heildartekna þeirra hefur rýrnað ár frá ári. Byrði vegna húsnæðiskostnaðar hefur aukist auk þess sem sýnt hefur verið fram á að skattbyrði hefur þyngst mest hjá þeim sem minnst hafa.
Fyrir alþingiskosningarnar 2016 og 2017 hafa stjórnmálaflokkarnir allir sem einn lofað því að bæta kjör öryrkja. Ljóst er að bæta þarf verulega í, um það eru allir sammála. Samt sem áður fer enn lítið fyrir efndum.
Flestir enn útundan
Viðbótin sem meirihluti fjárlaganefndar leggur til er í formi tilfærslu, þannig að í stað þess að setja 2,4 prósent í sérstöku framfærsluuppbótina (sem skerðist krónu á móti krónu), verði lagt aukið fjármagn, 166 milljónir króna, og viðbótin í málaflokkinn færð inn í heimilisuppbót. Þetta hefur í för með sér hækkun á tekjum þeirra sem búa einir, eða eru ein með börn. Hins vegar verða lang flestir úr hópi örorkulífeyrisþega útundan (eða 71%).
„Þegar upp er staðið sjáum við að sjö af hverjum tíu örorkulífeyrisþegum fá ekki þessa viðbót. Þau eru skilin eftir. Það er ekki hægt að orða þetta skýrar. Við erum til dæmis að tala um fólk sem býr með annarri fullorðinni manneskju, sem stundum er foreldri með átján ára ungmenni á heimilinu. Stundum leigir fólk með öðrum en maka og svo framvegis,“ segir Þuríður Harpa.
Einstaklingur verður að búa einn í eigin húsnæði eða vera með þinglýstan leigusamning til þess að eiga möguleika á þeirri viðbót sem meirihluti fjárlaganefndar leggur til. Þetta er því miður ekki tilfellið með marga lífeyrisþega.
Uppfærslan á greiðslum til lífeyrisþega um 4,7 prósent, sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu, mun þýða að óskertur lífeyrir almannatrygginga fer úr tæpum 228 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt, í rúmlega 238 þúsund krónur á mánuði. Nettó upphæðin nemur innan við sjö þúsund krónum á mánuði.
Skerðingar verður að afnema
Það blasir við öllum að ganga þarf mun lengra til þess að búa fólki mannsæmandi kjör auk þess sem brýnt er að afnema tekjuskerðingar. Á það leggur Öryrkjabandalag Íslands áherslu. Ljóst er að fólki er haldið í fátæktargildru. Tekjuskerðingar eru verulegar þrátt fyrir lágar tekjur. Allar skattskyldar tekjur yfir eina krónu á mánuði skerða sérstöku framfærsluuppbótina krónu-á-móti-krónu, sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar með lægstu tekjurnar eru með. Þessar skerðingar verður að afnema og bæta þarf enn í til þess að bæta kjör þeirra sem verða útundan, þrátt fyrir þessa viðleitni stjórnvalda. Þingmenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi lofuðu að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingar í aðdraganda síðustu tveggja alþingiskosninga.
Ítarefni:
Ályktun stjórnar Öryrkjabandalags Íslands vegna fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2018
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands, á neyðarfundi sínum 18. desember 2017, lýsir gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Skorað er á þingheim að standa við gefin loforð með því að gera strax mannsæmandi breytingar á framlögðu fjárlagafrumvarpi og leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega:
- Hækka þarf óskertan lífeyri almannatrygginga verulega.
- Afnema verður „krónu-á-móti-krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar.
Tillaga meirihluta fjárlaganefndar
„Lagt er til 166 millj. kr. aukið framlag til heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega vegna breyttrar útfærslu á hækkun bóta til örorkulífeyrisþega 1. janúar 2018. Árið 2018 verða bætur almannatrygginga til tekjulausra örorkulífeyrisþega sem halda einir heimili 280.000 kr. á mánuði með uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 4,7% frá og með 1. janúar 2018 og yrði þá fjárhæð bótanna 293.160 kr. Í yfirlýsingu stjórnvalda frá árinu 2016 var gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili fengju 300.000 kr. í bætur frá og með 1. janúar 2018. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir viðbótarhækkun á framfærsluviðmiði sem nemur 6.840 kr. þannig að þeir örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili fengju samtals 300.000 kr. í bætur. Nú er lagt til að í stað þess að hækka framfærsluviðmiðið um 6.840 kr. verði farin sú leið, líkt og hjá ellilífeyrisþegum, að hækka heimilisuppbót til örorkulífeyrisþega um 6.840 kr.“