Fjölmenni var á málþingi um starfsgetumat sem Öryrkjabandalag Íslands og VIRK starfsendurhæfingarsjóður buðu til á Grand Hótel miðvikudaginn 4. október 2017.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarpaði fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála í umræðunni um mögulegt starfsgetumat.
Fyrirlesarar á fundinum voru síðan þau Gert Lindenger, forseti EUMASS – Evrópusamtaka tryggingalækna, Eiríkur Smith, fötlunarfræðingur, Hans Jakob Beck, yfirlæknir hjá VIRK, og Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.
Gert Lindenger, sem varð gestur VIRK á fundinum, gerði grein fyrir örorku- og starfsgetumati í Evrópulöndum í erindi sínu. Niðurstöður hans voru meðal annars þær að flest fólk með hefðbundna sjúkdóma geti unnið að einhverju marki, en taka verði ákvörðun um það upp að hvaða marki eðilegt sé af samfélaginu að fara fram á að fólk sjá fyrir sér sjálfu þegar það á við vanlíðan eða verki (óþægindi) að stríða.
Eiríkur Smith, sem var gestur ÖBÍ á fundinum. Hann spurði í fyrirlestri sínum hvort þörf væri á starfsgetumati á Íslandi og taldi hann litlar vísbendingar um að núgildandi kerfi væri á einhvern hátt lakara en annars staðar í heiminum.
Hans Jakob Bec, yfirlæknir hjá VIRK, sagði í erindi sínu að starfsgetumat væri grundvöllur sjálfbærs örorkukerfis. Hann fór yfir þátttöku VIRK í þróun starfsgetumats.
Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, gerði í fyrirlestri sínum grein fyrir tillögum ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess sem lögð var fram í skýrslunni Virkt samfélag.
Upptaka af fundinum verður birt á vef ÖBÍ innan tíðar.