Skip to main content
Frétt

Færðu ekki jafn marga mjólkurpotta fyrir 20 þúsund óháð tekjum?

By 14. september 2017No Comments

Öryrkjabandalag Íslands mun taka fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2018 til gagngerrar athugunar og senda inn umsögn á næstu vikum.

Við fyrstu athugun er ekki annað hægt að sjá en  að verulega halli á örorkulífeyrisþega og fatlað fólk í fjárlagafrumvarpinu. Vissulega er stefnt að lögfestingu á NPA (notendastýrðri persónulegri aðstoð) en hvergi virðist vikið orði að lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) eða viðaukans við samninginn sem samkvæmt þingsályktunartillögu átti að fullgilda fyrir 1. janúar 2018. Lögfesting samningsins er mikilvæg fyrir mannréttindi fatlaðs fólks.

Þá vekur athygli að eitt af markmiðum frumvarpsins er að hækka heildartekjur ellilífeyrisþega. Hins vegar er ekki nefnt að ríkisstjórnin hafi það að markmiði að hækka heildartekjur örorkulífeyrisþega.

Ekkert kemur fram í þessu frumvarpi, við fyrstu athugun, sem bendir til að hækka eigi tekjumörk eða upphæðir fyrir húsnæðisbætur.

Í Kastljósi RÚV 12. september ræddi Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, um fjárlagafrumvarpið. Hann vék þar að þeirri ákvörðun er varðar snautlega hækkun til lífeyrisþega og nefndi að þeir sem halda einir heimili, hækki  úr  280 þúsund krónum í 300 þúsund krónur á mánuði um áramótin næstu og taldi það muna miklu fyrir þann hóp.

„Ja ég held að það munar mikið um það vegna þess að þegar þú ert með 280 þúsund krónur þá veltir þú hverri einustu krónu þannig að það munar um það að þetta er ekki eins og fyrir einhvern sem er með sex eða sjö hundruð þúsund að þá finnst honum þetta vera kannski minni fjárhæð. En þarna erum við að tala um hækkun upp á ja um 7%,“ sagði fjármálaráðherrann.

Með þessum skilaboðum hefur fjármálaráðherra fært í orð það lúalega viðhorf sem of víða ríkir gagnvart tekjulágum hópum  að þeir eigi að fagna hverri þeirri upphæð sem að þeim sé rétt. Upplifunin fyrir fjölmarga er að boðið er upp á mylsnu sem fellur af borði hinna ríku;  hér hafið þið ölmusu sem dugar ykkur vel. 

Frekar en að horfa til þess hver hækkunin sé hlutfallslega þarf að líta til þess hvað þessi 7% hækkun þýðir í krónutölum og setja hana í samhengi  við þann kostnað sem hlýst af því að  framfleyta sér í íslensku samfélagi. Þegar horft er á hlutina í heildarsamhengi eru 20.000 krónur lág upphæð og mér finnst rétt að benda ráðherra á að ekki er hægt að versla sér fleiri mjólkurpotta fyrir þann aur hvort sem fólk er með 300 eða 700 þúsund krónur á mánuði.

Nauðsynlegt er fyrir kjósendur að vita að hækkunin (7%) sem fjármálaráðherra nefndi nær einungis til fámenns hóps lífeyrisþega.

Samkvæmt frumvarpinu er áætlunin að hækka lífeyri almannatrygginga um 4,7%. Í krónutölum þýðir það að fullur lífeyri almannatrygginga hækkar um  rúmar 10 þús kr. fyrir skatt, eða úr tæpum 228 þús. kr. í rúmar 238 þús kr. Eftir skatt er hér um að ræða hækkun í kringum 6.700 kr. á mánuði. Þessi hækkun mun ekki breyta stöðu  fólks með lágar tekjur sem mun, í boði ríkisstjórnarinnar, áfram þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og vera fast í spennitreyju fátæktar þrátt fyrir að vera útsjónasamara en hátekjufólk eins og túlka má orð ráðherra í Kastljósþættinum á dögunum. Á sama tíma er ætlunin að ríkissjóður skili 44 milljarða króna afgangi. Tugmilljarða afgangur, stórkostlegt afrek? Fyrir hverja? Þessa gráðugu kannski?

 

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.