Skip to main content
Frétt

Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu

By 11. júlí 2017No Comments

Við upphaf staðgreiðslu árið 1998 var ekki greiddur tekjuskattur af lífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót. Auk þess gátu lífeyrisþegar ráðstafað hluta af persónuafslætti sínum á móti öðrum tekjum, s.s. lífeyrissjóðstekjum. Í dag greiða lífeyrisþegar nærri 30 þúsund króna skatt af þessum sömu tekjum.

Árum saman hafa skattleysismörk hækkað minna en laun og jafnvel minna en verðlag hjá lágtekjufólki, hvort heldur það er með lífeyri, bætur eða laun sér til framfærslu. Hér er ekkert annað á ferðinni en fáránleg hækkun skatta, sem lendir verst á eldri borgurum, veiku og slösuðu fólki og láglaunafólki. Í dag er persónuafslátturinn 52.907 krónur á mánuði. Ef hann er uppreiknaður frá árinu 1988 í samræmi við hækkun launavísitölu, þá væri hann rúmar 103 þúsund krónur á mánuði. Í dag ætti fólk að hafa 280 þúsund krónur á mánuði að lágmarki skattfrjálst, ef rétt hefði verið gefið.

Skattleysismörk eru mjög mikilvæg fyrir lífeyrisþega, en þau skipta hátekjufólk hins vegar litlu eða engu máli. Skattleysismörkin eru 80-100% af tekjum lífeyrisþega en einungis um 10% af tekjum þingmanna, um 6% hjá ráðherrum og bara um 3% af tekjum forstjóra.

Ef lífeyrisþegar fá tekjur annars staðar frá s.s. laun, lífeyrissjóð eða skattskylda styrki, þá hefur það iðulega þau áhrif að tekjur þeirra frá Tryggingastofnun skerðast. Tekjuskerðingar geta verið 100% af tekjum fyrir skatt. Slíkt er í raun ekkert annað en vondur skattur, sem dregur úr hvata til vinnu og veldur ekki bara aukinni fátækt, heldur leiðir einnig til sárafátæktar. Mörg tekjuviðmið hafa staðið í stað árum saman sem veldur því að tekjuskerðingarnar hafa aukist. Sem dæmi hefur frítekjumark vegna atvinnutekna verið óbreytt frá árinu 2009 en launavísitalan hækkað um 67% á sama tíma.

Við hvetjum þig til að ganga eða rúlla með okkur í göngunni 1. maí til að vekja athygli á kröfunni um að kjör örorkulífeyrisþega verði verulega bætt. Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu.


Greinin birtist á Vísi 28. apríl 2017.