Skip to main content
Frétt

Nýjar reglur gagnrýndar

By 28. júní 2017No Comments

Formaður Öryrkjabandalags Íslands sendi í lok maí sl. bréf til til Sambands íslenskra sveitarfélaga og til nokkurra sveitarfélaga með ábendingum varðandi reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og tillögum til úrbóta.  Í bréfunum voru gerðar margvíslegar athugasemdir við nýjar reglur sveitarfélaga um sérstakan húsnæðisstuðning sem tóku gildi 1. janúar 2017. Þá tóku húsnæðisstuðningur og sérstakur húsnæðisstuðningur við af húsaleigubótum og sérstökum húsaleigubótum. Auk margra efnislegar athugasemda er gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við bandalagið um gerð reglnanna eða gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir eða koma með ábendingar áður en reglur sveitarfélaga voru samþykktar.

Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er stjórnvöldum lögð sú skylda á herðar að hafa náið samráð við fatlað fólk um ákvarðanir sem tengjast stöðu þess. Tryggð sé virk þátttaka fatlaðs fólks, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem komi fram fyrir þess hönd.

ÖBÍ hefur nú farið yfir nýjar reglur nokkurra sveitarfélaganna um sérstakan húsnæðisstuðning og er ljóst að bæði neðri og efri tekjumörk eru allt of lág og skerðingarhlutfallið allt of hátt eða um 50%. Stuðningur byrjar að skerðast og fellur niður við mun lægri mánaðartekjur en lagðar eru til í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins. Við ákvörðun húsnæðisstuðnings er til að mynda ekki horft til þess ,  hversu hátt hlutfall ráðstöfunartekna sinna umsækjendur þurfa að greiða fyrir húsaleigu. Það er mat ÖBÍ að þetta feli í sér skerðingu sem fari þvert á markmiðin með sérstökum húsnæðisstuðningi. Honum er ætlað að aðstoða þá allra verst settu sem ekki eru færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða þá eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Nýju reglurnar gera það ekki, í flestum tilvikum raunar þvert á móti. Stuðningurinn fyrir hópinn skerðist miðað við eldri reglur. Síðustu ár hefur leiguverð hækkað mikið. Greiðslubyrðin hækkar þannig bæði vegna hækkandi leiguverðs og skerts stuðnings.

Í leiðbeinandi reglugerð um málið segir að gert sé ráð fyrir því að heildaráhrif breytinganna verði metin um mitt ár 2017. Ætla má að slíkt mat sé í vinnslu eða hafi mögulega nú loksins verið lokið.

ÖBÍ leggur til að sveitarfélög noti ekki lægri viðmiðunarfjárðhæðir vegna mats á áhrifum tekna en sem gefnar eru upp í leiðbeinandi reglum frá velferðarráðuneytinu.

Tilgangurinn með þeim breytingum sem hafa tekið gildi er að styðja við efnaminna fólk á húsnæðismarkaði þar sem húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum. Ef ná ætti því markmiði að styðja við leigjendur yrði stuðningurinn að hækka í samræmi við leiguverð. Það hefur alls ekki gerst, hvað þá að húsaleigubætur eða sérstakur húsnæðisstuðningur hafi hækkað í samræmi við vísitölu neysluverðs. Eigi húsnæðisstuðningur – sér í lagi sérstakur húsnæðisstuðningur – að þjóna tilgangi sínum þarf hann að fylgja þessu viðmiði.

Ennfremur hefur sú breyting verið gerð á kerfinu er að allar skattskyldar tekjur teljist nú til tekna. Þetta hefur orðið til þess að húsnæðisstuðningur skerðist verulega hjá þeim sem þurfa mest á honum að halda, þ.e. hjá fólki sem treystir á lífeyri almannatryggingar sér til framfærslu. Sem dæmi hafa nýju reglurnar þau áhrif að uppbót á lífeyri vegna lyfjakaupa eða kaup á heyrnartæki og uppbót vegna reksturs bifreiðar sem veitt er á grundvelli hreyfihömlunar teljast til tekna sem skerða húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning.

Eðlilegt væri að Tryggingastofnun sérmerkti greiðslutegundir sem þessar til ríkisskattstjóra þannig að hægt væri að aðgreina þær enda greiðslunar til komnar vegna útlagðs kostnaðar og vegna sérstakra aðstæðna. Sveitarfélög geta óskað eftir þeim upplýsingum frá ríkisskattstjóra og dregið greiðslurnar frá tekjum við útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings. Framkvæmdi gæti legið hjá sveitarfélögum eða þá Vinnumálastofnun.

Þessu til viðbótar þar að setja fram skýra skilgreiningu á því hvað telst vera eign þegar reiknað er hvað fólk eigi rétt á að fá mikinn stuðning. Er um að ræða hreina eign að frádregnum skuldum eða eign á tillits til skulda? Þá þarf að vera skýrt hvernig eignir annarra fjölskyldumeðlima er metnar við ákvörðun um stuðninginn.