Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands var stofnuð þann 8. mars 2005 og var Guðríður Ólafsdóttir frumkvöðull að stofnun hennar. Fjallað var um hreyfinguna í sérblaði Fréttablaðsins á kvennadeginum 19. júní 2017.
Kvennahreyfingin er opin öllum konum innan bandalagsins. „Hreyfingin er umræðuvettvangur og baráttutæki fatlaðra og langveikra kvenna með það markmið að skapa eitt samfélag fyrir alla, þar sem jafnrétti ræður á öllum sviðum, samfélag þar sem fatlaðar og langveikar konur hafa tækifæri til þess að þroskast og nýta hæfileika sína,“ segir Þorbera Fjölnisdóttir, starfsmaður hópsins, en hún hefur verið hluti af stýrihópnum frá stofnun Kvennahreyfingarinnar.
„Staðreyndin er sú að karlar og konur hafa ekki sömu stöðu í samfélaginu, þó okkur finnist að þannig eigi það auðvitað að vera. Hinn sameiginlegi reynsluheimur tengir fólk af sama kyni því ákveðnum böndum. Starf Kvennahreyfingar ÖBÍ grundvallast á samkennd, þessari sameiginlegu reynslu sem við deilum sem fatlaðar og langveikar konur og á þann hátt erum við systur – kynsystur. Kvennahreyfingin er þannig jarðvegurinn sem við getum styrkst og blómstrað í,“ segir Þorbera.
„Jafnrétti kynjanna er nokkuð vel tryggt samkvæmt lögum en jafnrétti er þó ekki enn náð í reynd úti í samfélaginu og nægir þar að nefna launamun kynjanna. Lagaleg staða fatlaðs fólks hefur á sama hátt verið bætt mikið frá því sem áður var en við erum samt í stöðugri baráttu fyrir hagsmunum okkar.
Í Kvennahreyfingu ÖBÍ er því vettvangur fyrir konur innan samtakanna til að vekja athygli á stöðu fatlaðra og langveikra kvenna gagnvart hinum ýmsu málaflokkum.
Hreyfingin hefur einnig árlega tekið þátt í dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Einnig höfum við tekið þátt í árlegu „16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi“. Kvennahreyfing ÖBÍ hefur stutt námskeið fyrir fatlaðar konur á vegum Tabú, femínískrar fötlunarhreyfingar. Fatlaðar konur úr Kvennahreyfingunni og Tabú fóru í kröfugöngu til að vekja athygli á niðurstöðum rannsókna sem liggja fyrir um háa tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalamir réttarkerfisins þegar kemur að ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi voru færð kröfuskjöl. Kvennahreyfingin tók einnig þátt í Druslugöngunni árið 2014 ásamt Tabú en það var í fyrsta sinn sem fatlaðar konur tóku þátt í göngunni sem hópur.
Kvennahreyfingin átti fulltrúa í bakhópi rannsóknar á ofbeldi gagnvart fötluðum konum sem gerð var á vegum Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum við HÍ í samvinnu við rannsóknarstofnanir og háskóla erlendis og var styrkt af Daphne III áætlun Evrópusambandsins.
Tók fulltrúi Kvennahreyfingarinnar þátt í að skrifa greinar til að vekja athygli á niðurstöðum rannsóknarinnar sem sýndu að ofbeldi gegn fötluðum konum er algengt. Ofbeldið er nátengt félagslegri stöðu og valdaleysi í eigin lífi, er margs konar, andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og fjárhagslegt, og er oft þaggað niður,“ segir Þorbera.
Kvennahreyfing ÖBÍ heldur úti virkri Facebook-síðu þar sem vakin er athygli á ýmsu því er snertir líf fatlaðra og langveikra kvenna.
Umfjöllun Fréttablaðsins má sjá hér: