Starfsfólk skrifstofu ÖBÍ fer í náms- og kynnisferð til Brussel í næstu viku líkt og lagt var upp með í áætlunum bandalagsins fyrir árið 2017. Lagt verður af stað í ferðina mánudaginn 5. júní sem er annar í hvítasunnu og komið heim föstudaginn 6. júní. Starfsfólk hefur unnið að skipulagningu dagskrár í lengri tíma í náinni samvinnu við þau félög og hlutaðeigandi aðila sem heimsóttir verða í ferðinni.
Tilgangur ferðarinnar er að afla þekkingar, mynda tengsl og kynnast betur starfi systursamtaka, annarra samtaka og alþjóðastofnana sem starfa ötullega að málefnum fatlaðs fólks og eru með aðsetur í Brussel. Þá verða kynningafundir með fulltrúum félaga sem skipa veigamikinn sess í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks innan Evrópu.
Félögin hafa öll vakið athygli fyrir fagleg og jákvæð vinnubrögð.
Hér gefur að líta lista yfir þau félög/samtök/stofnanir sem fundað verður með:
a) European Disability Forum (EDF). Evrópsk regnhlífarsamtök félaga fatlaðs fólks sem ÖBÍ á aðild að.
b) Belgium Disability Forum (BDF). Belgísk systursamtök okkar.
c) European anti poverty network (EAPN). ÖBÍ á í samstarfi við EAPN.
d) European Network on Independent Living (ENIL). Samtök um sjálfstætt líf.
e) Mental Health Europe. Samtök um geðheilbrigðismál.
f) European Associations of Service Providers for Persons with Disabilities (EASPD). Evrópusamtök þjónustuveitenda.
g) Fundur hjá Evrópuþinginu um sjálfbæra þróun og þar á meðal baráttu gegn fátækt. EDF, Evrópuþingið og Disability Intergroup (DI) standa að fundinum. DI er óformlegur félagsskapur þingmanna Evrópuþingsins sem vinna að málefnum fatlaðs fólks.
h) Öðrum samtökum (Á fundi hjá Evrópuþinginu).
Þá verður lögð áhersla á að fræðast um hvernig félögin vinna svonefndar skuggaskýrslur (e. alternative report) um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og hvernig þau haga hagsmunabaráttu sinni gagnvart Evrópuþinginu og samskiptum þeirra við þingmenn.
Skuggaskýrsla er skýrsla hins borgaralega samfélags um framkvæmd samningsins. Þar sem hið íslenska borgaralega samfélag getur skilað skuggaskýrslu eftir um það bil eitt og hálft ár er ákaflega mikilvægt að fá alþjóðlega tengingu við skýrslugerðina.
Nánar um aðilana sem verða sóttir heim
EDF er valið vegna þess EDF eru regnhlífarsamtök félaga fatlaðs fólks í Evrópu, auk þess sem ÖBÍ er eitt aðildarfélaga EDF og á formaður ÖBÍ sæti í stjórn samtakanna. Hjá EDF er áratuga reynsla af hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Yfirsýn EDF yfir framgang réttindabaráttunnar er mikil. Tilgangurinn er að læra aðferðir í réttindabaráttunni ásamt því að fá yfirsýn yfir hvað hefur heppnast vel og hvað ekki, hjá EDF og aðildarfélögum EDF.
Sérstök áhersla verður á vinnu EDF við skuggaskýrslu samtakanna vegna SRFF. Sú skýrsla vakti athygli út um allan heim.
Jafnframt verður áhersla lögð á velheppnað starf EDF við baráttu þeirra fyrir nýrri evrópskri aðgengislöggjöf, undir nafninu „Accessibility Act!“.
BDF eru systursamtök ÖBÍ. Þau unnu að skuggaskýrslu um SRFF. Ætlunin er að læra af reynslu þeirra við gerð skýrslunnar og kynnast starfi þeirra og baráttuaðferðum.
Önnur félög eru valin til samstarfs/fundar til þess að fá innsýn inn í starf félaga sem vinna á sömu sviðum og ÖBÍ. EAPN, tengist kjaramálum. ENIL tengist sjálfstæðu lífi og Mental Health Europe tengist heilbrigðismálum. EASPD hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri með hágæða þjónustukerfum. Innan EASPD starfa sérstakir málefnahópar varðandi atvinnu- og menntamál. Öll félögin nýta sér SRFF í starfi sínu og njóta mikillar virðingar fyrir störf sín.
Dagskrá
Annar í hvítasunnu, mánudagur, ferðast frá Keflavík til Brussel.
Þriðjudagur 6. júní
EDF Fundur í höfuðstöðvum EDF, Square de Meeus 35.
Kynning á EDF, starfi þess, framtíðarsýn og sérstök yfirferð um vinnu þeirra við skuggaskýrslugerð í tengslum við SRFF. Reynslusögur frá félögum í Evrópu. Sérstakri athygli verður beint að nýrri aðgengistilskipun undir nafninu „Accessibility ACT!“ og hvernig EDF vann að henni.
Áætlað er að fá á fundinn fulltrúa frá Mental Health Europe. Mental Health Europe berjast fyrir fullum réttindum fólks með geðraskanir eða -sjúkdóma. Grunngildi félagsins eru sjálfstæði, mannréttindi, gagnsæi, sjálfsákvörðunarréttur og bati.
ENIL Fundur í höfuðstöðvum ENIL, 7th Floor- Mundo J, Rue de l’Industrie 10.
Kynning á ENIL, starfi þess og framtíðarsýn. Áhersla á baráttu þeirra fyrir sjálfstæðu lífi, með sérstaka áherslu á notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Reynslusögur frá félögum í Evrópu. Heimasíða ENIL hefur t.d. vakið mikla athygli og skilgreiningar þeirra eru nýttar víðsvegar um heiminn. Grunnur að hinu faglega starfi verður kynnt. Hver er lykillinn að velgengninni?
Miðvikudagur 7. júní
BDF Fundur í höfuðstöðvum BDF, Finance Tower, Boulevard du Jardin Botanique 50.
Kynning á BDF, uppbyggingu, starfi þess og framtíðarsýn. Jákvæðar reynslusögur. Baráttuaðferðir kynntar. Sérstök áhersla á skuggaskýrslugerð.
EAPN Fundur í höfuðstöðvum BDF, Finance Tower, Boulevard du Jardin Botanique 50.
Kynning á EAPN, starfi þeirra, uppbyggingu og framtíðarsýn. Reynslusögur. Baráttuaðferðir þeirra gegn fátækt.
Evrópuþingið, „Disability Intergroup“, African Disability Forum o.fl.
Fundur um sjálfbæra þróun og þar á meðal baráttuna gegn fátækt, Rue Wiertz 60.
“The inclusion of persons with disabilities in the implementation of the Sustainable Development Goals by the European Union”
Viðburður á vegum EDF, Evrópuþingsins og „Disabilty Intergroup“, sem er óformlegur félagsskapur þingmanna Evrópuþingsins, frá öllum þjóðernum, sem vinna að málefnum fatlaðs fólks. Á viðburðinum verða meðal annars félagar frá African Disabilty Forum.
Fimmtudagur 8. júní
EASPD Fundur með evrópusamtökum þjónustuveitenda. Handelsstraat / Rue du Commerce 72.
EASPD er regnhlífarsamtök þjónustuveitenda í Evrópu. Þeirra slagorð er „improving services – improving lives“. Meginmarkmið EASPD er að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri með hágæða þjónustukerfum. Á fundinum verður sérstök áhersla lögð á tenginguna á milli SRFF og skyldu opinberra aðila til að tryggja fötluðu fólki þjónustu.
Föstudagur 9. júní, ferðast frá Brussel til Keflavíkur.
Skrifstofa ÖBÍ verður opin eins og áður frá kl. 9:30-15:00.