Skip to main content
Frétt

Vegna umfjöllunar um fyrirframgreidd laun

By 22. maí 2017No Comments

Vegna umfjöllunar á vefsíðum DV og RÚV um fyrirfram greidd laun Ellenar Calmon, formanns Öryrkjabandalags Íslands, vill bandalagið árétta að Ellen er starfsmaður á skrifstofu bandalagsins í 100% starfi á meðan hún gegnir formennsku.

Hún er með 4 mánaða uppsagnarákvæði í ráðningarsamningi. Fyrirframgreiðslan var veitt um miðjan september 2016. Ellen óskaði eftir henni skriflega við framkvæmdastjóra ÖBÍ. Fékk Ellen því skertar launagreiðslur í desember, janúar, febrúar og mars sem samsvarar upphæðinni.

Þegar starfsfólk óskar eftir að fá laun greidd fyrirfram er það skoðað í hverju tilviki fyrir sig og framkvæmdastjóri ÖBÍ hefur haft það að óskráðri vinnureglu að miða við að fyrirframgreiðsla sé ekki hærri en sem nemur þeirri upphæð sem starfsmaður fengi greidda á uppsagnarfresti.

Greiðslan til formanns ÖBÍ var skilgreind í bókhaldi sem fyrirframgreidd laun og í ársreikningi sem skammtímakrafa í árslok, ásamt öðrum skammtímakröfum. Ársreikningurinn var kynntur á stjórnarfundi ÖBÍ miðvikudaginn 17. maí 2017. Þar var gerð grein fyrir ofangreindri fyrirframgreiðslu launa. Ársreikningur var þá samþykktur og undirritaður af stjórn.

Stjórn ÖBÍ fundaði á ný mánudaginn 22. maí 2017, en var sá fundur haldinn í framhaldi af stjórnarfundi á miðvikudaginn til að ræða önnur mál sem ekki var unnt að ljúka á fyrri fundi.

Umræður voru á fundinum um að engar skriflegar vinnureglur væru tiltækar og því ekki um brot á reglum að ræða. Einnig var rætt um hvernig skilgreina ætti fyrirframgreidd laun. Samþykkt var tillaga um að lán til starfsfólks væru ekki heimil. Þá var samþykkt, samkvæmt ábendingu endurskoðanda, að semja vinnureglur um fyrirframgreiðslu launa. Stjórnin fól framkvæmdaráði ÖBÍ að vinna tillögu um þær sem síðan verða lagðar fyrir stjórn.