Skip to main content
Frétt

Hjálpartæki skoðuð – ferð um hjálpartækjasýningu

By 11. maí 2017No Comments

Hjálpartækjasýning Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar var haldin dagana 5. og 6. maí í Laugardalshöll. Fjölmargir aðilar kynntu vörur sýnar og þjónustu á sýningunni.

Talsvert úrval var af hjólastólum og aukabúnaði á hjólastóla til sýnis. Þar á meðal var Smart Drive hjálparmótor frá Eirberg, sem hægt er að tengja við flesta stóla. Drifinu er stjórnað með úri og virkjað með því að taka í drifhringina á hjólastólnum. Numið er staðar með því að slá í drifhringinn. SÍ tekur þátt í kostnaði.

Margir gestir voru spenntir fyrir stól frá Stoð sem hentar vel til útivistar og er því ekki niðurgreiddur af SÍ.

Ingi Bjarnar bankastjóri mannaði bás Hjálpartækjaleigu Sjálfsbjargar sem var opnuð fyrir skemmstu. Hann sagðist aðstoða fólk við að læra á og nota hjálpartækin enda væri algengt að þau væru rangt stillt.

Í bás Frumbjargar stóð maður sem tengdur var við tölvuskjá. Ásmundur kynnti Kine kerfið sem greinir vöðvavirkni. Þá eru merki tengd við viðkomandi líkamshluta og virknin kemur fram á skjánum. Hann sagði að þetta væri ekki síst nytsamlegt fólki við að finna vöðva sem hægt er að stjórna og til að sýna hvort maður beiti sér rétt.

Leiðarlínur voru áberandi í bás Góðs aðgengis. Lilja sagði að úrvalið væri orðið það gott að lítið mál væri að leggja leiðarlínur þar sem þeirra væri þörf. Hægt er að líma upphleyptar leiðarlínur á dúka og annað gólfefni og haldast þær á sínum stað þrátt fyrir mikinn umgang.

Frederikke sýndi Memaxi kerfið sem var þróað til að auðvelda fólki með Alzheimer, aðstandendum þess og fagfólki að skipuleggja daginn og eiga samskipti.

Hægt er að fá lánað farþegahjól frá Hjólað óháð aldri til að hjóla um með fólk og njóta umhverfisins og náttúrunnar. Sesselja talaði um það sem samfélagsverkefni enda er hægt að fá slíkt hjól lánað endurgjaldslaust. Hjól sem þetta eru nú til á 15 hjúkrunarheimilum víða um land.

Hjálparhundurinn Ísar fylgdist grannt með Auði sem sagði að hægt væri að þjálfa hunda til að aðstoða meðal annars heyrnarskerta, hreyfihamlaða og flogaveika.  Ísar hefur verið þjálfaður til að aðstoða Arndísi, sem notar hjólastól, við daglegar athafnir. Á hinum Norðurlöndunum hafa líknarhundar (s. vårdhundar) verið til taks á hjúkrunarheimilum um nokkurra ára skeið, enda hafa rannsóknir sýnt að það hafi jákvæð áhrif á líðan fólks að umgangast dýr.

 

– Stefán Vilbergsson, starfsmaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál.