Skip to main content
Frétt

Hækka þarf örorkulífeyri til muna

By 25. apríl 2017No Comments

 

Ályktun stjórnar ÖBÍ um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018-2022

Leggja þarf ríkari áherslu á öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og hækka þarf örorkulífeyri til muna –

 

Stjórn ÖBÍ gagnrýnir harðlega að fyrirhuguð hækkun bóta almannatrygginga á árunum 2018 til 2022 eigi einungis að verða á bilinu 3,1%- 4,8% í fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára. Um er að ræða mjög lága prósentuhækkun til örorkulífeyrisþega, sem eru almennt með mjög lágar tekjur.  Kjör þessa hóps hafa dregist mjög aftur úr kjörum meginþorra landsmanna. Ljóst er af tillögunum að stjórnvöld hafa ekki í hyggju að bæta kjör örorkulífeyrisþega, sem standa verst, þ.e. þeirra sem hafa engar eða lágar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga til framfærslu.

Þá er gagnrýnt hversu lágar fjárhæðir eru áætlaðar til uppbyggingar innviða og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Öflugt heilbrigðiskerfi sem inniber m.a. sálfræði- og tannlæknaþjónustu, þar sem biðlistar eru engir hefur bein áhrif á líðan fólks í landinu og ætti að geta dregið úr nýgengi örorku.

Styrkja þarf og styðja menntastofnanir í landinu þannig að ljóst sé að allt nám sé aðgengilegt  á öllum skólastigum, á öllum aldri. Er þar meðal annars átt við að nemendur fái námsefni við hæfi, að menntastofnanir séu í hentugu húsnæði þar sem allt aðgengi er gott. Þá á að veita  viðeigandi aðlögun í námi þannig að nemendur með fötlun eigi sömu möguleika á menntun og þar með sömu möguleika á vinnumarkaði til jafns við aðra.

 

Greinargerð:

Hvað þýða tillögur um 3,1% til 4,8% hækkun í krónutölum?

Óskertur örorku- og endurhæfingarlífeyrir fyrir árið 2017 er 227.883 kr. (fyrir skatt). Fyrirhuguð 3,1% til 4,8% hækkun í byrjun árs 2018 myndi þýða að hann yrði á bilinu 234 til 238 þúsund kr. á mánuði. Eftir skatt yrði upphæðin rúmlega 200 þúsund krónur á mánuði. Enginn lifir af þessum tekjum og allra síst einstaklingar sem þurfa oft að greiða hærra hlutfall ráðstöfunartekna sinna í heilbrigðiskostnað, hjálpartæki og ýmsa aðra þjónustu.

Á tímabilinu sem um ræðir, árin 2018-2022, myndi krónutöluhækkun óskerts örorkulífeyris almannatrygginga vera á bilinu sjö til þrettán þúsund krónur á mánuði (fyrir skatt) um hver áramót.

Örorkulífeyrir á að tryggja framfærslu þeirra sem ekki geta tekið þátt á vinnumarkaði eða hafa mjög takmarkaða starfsgetu. Með þeirri leið, sem lagt er upp með í þingsályktunartillögunni, mun bilið á milli lágmarkslauna og óskert örorkulífeyris verða aukið til muna. Slíkt gengur algjörlega gegn loforði Viðreisnar, flokks fjármálaráðherra, fyrir alþingiskosningar árið 2016, um að „enginn lífeyrisþegi fái minna en sem nemur lágmarkslaunum.“  Lágmarkslaun hækka í 300.000 kr. árið 2018. Ef hærri prósentutalan er tekin (4,8%) fimm ár í röð, næði óskertur örorkulífeyrir   upp í rúm 288 þús. árið 2022. en lágmarkslaun munu verða 300.000 á næsta ári.