Skip to main content
Frétt

Alþjóðlegi Parkinson dagurinn í dag

By 11. apríl 2017No Comments

Í dag, þriðjudaginn 11. apríl, er haldið upp á Alþjóðlega Parkinsondaginn um allan heim. Nú í ár eru liðin 200 ár frá því að Parkinsonsjúkdómurinn var fyrst skilgreindur í fræðiritgerð eftir enska lækninn Dr. James Parkinson. Sjúkdómurinn var síðar nefndur eftir honum. 11. apríl ef fæðingardagur James Parkinson og í tilefni af þessum tímamótum verður sérstakt átak um allan heim sem kallast #UniteForParkinsons en átakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um Parkinsonsjúkdóminn, opna umræðuna og auka skilning fólks á sjúkdómnum.

 

HVAÐ ER PARKINSONSJÚKDÓMUR?

Parkinson er sjúkdómur í miðtaugakerfinu sem sem hefur áhrif á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingu. Einkenni sjúkdómsins byrja hægt en ágerast smám saman eftir því sem tíminn líður. Augljósustu einkennin er tengd hreyfingu eins og skjálfti, vöðvastífleiki og hægar hreyfingar. En sjúkdómnum fylgja líka einkenni sem tengjast ekki hreyfingu eins og svefntruflanir, verkir, þreyta og andleg vanlíðan en þessi einkenni geta haft töluverð áhrif á lífgæði. Parkinsonsjúkdómurinn er mjög persónubundinn og yfirleitt upplifir fólk einkenni sjúkdómsins á mismunandi hátt. Á Íslandi eru um 700 manns með Parkinson, 25 ára og eldri, en gert er ráð fyrir að fjöldi fólks með Parkinson í Evrópu muni tvöfaldast til ársins 2030 og verði þá um 1.400 hér á landi.
 
PARKINSONSAMTÖKIN + HUGLEIKUR

Parkinsonsamtökin bjóða upp á öflugt félagsstarf, fræðslu, jafningjastuðning og kórstarf. Samtökin standa vörð um hagsmuni fólks með Parkinson og Parkinson-skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Í tilefni að Alþjóðlega Parkinsondeginum hefur Hugleikur Dagsson teiknað nýja útgáfu af merki samtakanna. Merkið er túlípani sem er alþjóðlegt tákn Parkinsonsjúk-dómsins en í útgáfu Hugleiks er merkið myndað úr fjölmörgum ólíkum manneskjum sem sýna fjölbreytileikann sem tengist sjúkdómnum.