Skip to main content
Frétt

Aðgengi á Keflavíkurflugvelli – Ferðasaga í myndum

By 10. apríl 2017No Comments

Aðgengi og þjónusta við fatlaða flugfarþega hefur batnað mikið á undanförnum árum, enda hefur Isavia lagt mikla áherslu á það og hefur sýnt vilja til að gera enn betur. Á fundi með fulltrúum Isavia og Samgöngustofu í desember 2016 benti málefnahópur ÖBÍ um aðgengi benti á tólf atriði til úrbóta. Vel var brugðist við ábendingunum og staðfest að margt á listanum yrði lagað, svo sem upplýsingar fyrir fatlaða flugfarþega á heimasíðu, leiðarlína yrði lögð að kallkerfi í brottfararsal á Leifsstöð, handstoðir yrðu settar upp á salernum og lýsing bætt í brottfararsal. Önnur atriði yrðu skoðuð nánar.

Málefnahópnum var svo boðið á fund á Keflavíkurflugvelli föstudaginn 31. mars 2016. Að lokinni kynningu Guðmundar Hjaltested, forstöðumanns PRM þjónustu og var farið um flugstöðina undir leiðsögn Guðmundar og Þrastar V. Söring, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar.

Við komu var lagt í P-merkt stæði við brottfararálmu og óskað eftir PRM aðstoð. Eftir litla bið kom maður út með hjólastól. Hann sagðist fylgja þeim sem óska eftir þjónustu gegnum innritun og að hliði. Til að tryggja hnökralausa þjónustu þarf beiðni um aðstoð að hafa borist Isavia með 36 klst. fyrirvara. Þjónustubeiðnir hafa fjórfaldast á síðustu 5 árum.

Kallkerfi eftir PRM aðstoð er einnig að finna inni á flugstöðinni, undir Meeting Point skiltinu. Svört upphleypt leiðarlína liggur nú að kerfinu frá inngangi eftir ábendingu málefnahópsins. Því miður náðist ekki mynd af henni.

Á flugstöðinni eru 74 hjólastólar, 8 cabinstólar og 1 lyfta og er verið að fjölga. Á hjólastólastæði í innritunarsal er fólk beðið að virða það að stólarnir séu aðeins ætlaðir þeim sem þurfa á þeim að halda. Það er af gefnu tilefni.

Hluti af hjólastólaflotanum er af gerð sem meðal annars veitir stillanlegan stuðning við fætur.

 

Ekkert salerni fyrir hreyfihamlað fólk er að finna í innritunarsal, heldur í kjallara. Handstoðir sem væntanlegar eru á önnur salerni í flugstöðinni eftir ábendingu málefnahópsins eiga vonandi eftir að spara mörgu hreyfihömluðu fólki sporin.

Upplýsingaskjáir í augnhæð eru í brottfararsal og við vegabréfaskoðunina að D-hliði, sem auðveldar ekki síst sjónskertu fólki að kynna sér upplýsingar um flug.

Fjölda flóttastóla er að finna í flugstöðinni, en með þeim er hægt að fara niður tröppur í eldsvoða.

Flýtileiðir eru til fyrir hreyfihamlað fólk bæði gegnum innritun sem og vegabréfaskoðun að D-hliði.

Grænlitar merkingar fyrir C-hlið þykja ógreinilegar fyrir sjónskert fólk vegna baklýsingarinnar. Ræddur var möguleikinn að setja granna útlínu kringum stafina.

Erfitt getur verið að vara sig á gleri, ekki síst fyrir sjónskert fólk. Merki Isavia hefur verið límt á glerveggi að hliðum til að varna því að fólk gangi á þá. Bent var á að þar sem það væri hvítt sé það ekki nægilega greinilegt gegnt ljósgráum bakgrunni.

 

Í C-álmu hafa glerveggir að hliðum verið huldir litaðri filmu sem er mjög gott aðgengis vegna.