Skip to main content
Frétt

Blindrafélagið verðlaunað

By 10. mars 2017No Comments

Fjölmenni var á málþingi sem haldið var um algilda hönnun á Grand hótel í dag. Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi stóð að málþinginu ásamt Blindrafélaginu, Verkís, Átaki, félagi fólks með þroskahömlun og Reykjavíkurborg. Málþingið var haldið í samvinnu við Umhverfisráðuneytið, Ferðamálastofu, Mannvirkjastofnun og Vegagerðina. Þar var fjallað um aðgengismál innan byggðar og á ferðamannastöðum en 11. mars er alþjóðlegur dagur aðgengis.

Á málþinginu var kynnt nýtt leiðbeiningarrit sem málefnahópur ÖBÍ um aðgengi gefur út um algilda hönnun utandyra. Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, segir í inngangi leiðbeiningarritsins að því sé ætlað að veita þeim sem bera ábyrgð á skipulagningu almenningsrýma innan byggðar innsýn í helstu aðgengisþarfir fatlaðs fólks.

Grétar Pétur Geirsson, formaður málefnahópsins, sagðist treysti því að hönnuðir, arkitektar og verkfræðingar hefðu ritið ávallt innan seilingar. Í ritinu eru birtar ljósmyndir og teikningar sem sýna hvernig rétt er að haga gerð bílastæða, göngusvæða, torga og gatnamóta. Þá er farið yfir gerð leiðarlína og hvernig best sé að bregðast við áhrifum veðurs á helstu leiðir.

Á málþinginu fóru fulltrúar frá Verkís yfir reglur um hönnun á útiumhverfi sem gilda í Noregi og Svíþjóð. Þar kom meðal annars fram:

  • Í Svíþjóð eru föll og óhöpp á göngu- og hjólastígum flokkuð sem umferðarslys, skráð í slysagögn og kynnt í tölum um umferðarslys.
  • Í löndunum tveimur byggjast hönnunarforsendur á skertri hreyfigetu fólks, sjón- og heyrnarskerðingu, ofnæmi og fælni.

Fulltrúi frá Vegagerðinni fór yfir niðurstöður starfshóps um réttindi fatlaðs fólks og þær tillögur sem hann gerði og sendi umhverfis-, félags- og samgönguráðuneytum.

  • Lagt var til við félagsmálaráðherra að kanna ferðaþjónustu við fatlaða í einstökum sveitarfélögum og ákveða hvort og þá hvernig eigi að bæta hana.
  • Lagt var til við umhverfisráðherra að útbúnir yrðu mælikvarðar um aðgengi að mannvirkjum tengdum samgöngumannvirkjum.
  • Lagt var til við samgönguráðherra að útbúnir yrðu mælikvarðar um aðgengi á grundvelli reglna um samgöngur, þar á meðal á grundvelli Evrópugerða.

Fulltrúi Mannvirkjastofnunar fór yfir algilda hönnun út frá byggingarreglugerðum og fulltrúar frá Átaki, félagi fólks með þroskahömlur, fóru yfir niðurstöður úttektar á aðgengi að ferðamannastöðum. Í úttekt Átaks kemur fram að hvergi hafi að fullu verið gert ráð fyrir heimsókn fatlaðs fólks.

  • Aðgengi fyrir hjólastóla var almennt slæmt eða takmarkað.
  • Útsýnispalla vantar víða.
  • Sjónskertu og blindu fólki ekki gert mögulegt að upplifa staðina sem voru heimsóttir.
  • Aðeins á einum stað var boðið upp á táknmálstúlk í ferð um svæði.
  • Aðeins á einum stað var myndmál notað til að kynna efni sem væri þess vert að skoða eða skýringar á auðlesnu eða auðskildu máli og því virtist ekki gert ráð fyrir heimsókn fólks með þroskahömlun.

Í lok málþingsins veitti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Blindrafélaginu fyrstu aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar.

Fram kemur í rökstuðningi valnefndar:
Mörg af brýnustu hagsmunamálum blindra hafa náðst fram af frumkvæði Blindrafélagsins og þar er m.a. hægt að nefna Hljóðbókasafn Íslands, Sjónstöð Íslands og Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Auk áherslu á bætt aðgengi bæði innan og utan dyra hefur Blindrafélagið undanfarin ár lagt áherslu á bætt netaðgengi og að vefsíður séu aðgengilegar blindum og sjónskertu fólki.  Blindrafélagið átti frumkvæði að smíði nýs íslensks talgervils sem er gervirödd sem les texta“.