Börn sættu andlegu og líkamlegu ofbeldi og vanrækslu þegar þau voru vistuð á fullorðinsdeildum á Kópavogshæli á árunum 1952 til 1993. Þetta er niðurstaða Vistheimilanefndar sem skilaði dómsmálaráðherra skýrslu um málið í dag.
Í mars 2007 samþykkti Alþingi lagafrumvarp um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Nefndi kannaði starfsemi vistheimilisins Breiðavík í Rauðasandshreppi, Heyrnleysingjaskólans 1947-1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965-1984 og skólaheimilisins Bjargs 1965-1967. Þá var skilað áfangaskýrslum um vistheimilin Silungapoll, Reykjahlíð og heimavistarskólann að Jaðri. Einnig Upptökuheimili ríkisins, Unglingaheimili ríkisins og meðferðarheimilisins í Smáratúni og á Torfastöðum.
Í mars 2008 barst forsætisráðuneytinu erindi frá Landssamtökunum Þroskahjálp þar sem farið var fram á sérstaka rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna á stofnunum á vegum opinberra aðila á árum áður. Var þá vistheimilanefnd endurskipuð. Henni var falið að skoða vistun barna á Kópavogshæli á árunum 1952 til 1994.
Skýrsla með niðurstöðum nefndarinnar var birt í dag. Þar kemur fram að nefndin telur að börn sem voru vistuð á fullorðinsdeildum hælisins hafi í verulegum mæli þolað andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þá hafi börnin verið vanrækt á ýmsan hátt þannig að líf þeirra hafi verið í hættu og heilsa einnig.
Þá segir nefndin að þrátt fyrir að rannsóknir hér á landi og erlendis hafi gefið sterkar vísbendingar um hættu á kynferðisofbeldi gegn börnum á stofnunum eins og Kópavogshæli sé ekki nægilegt tilefni til að álykta um líkur á kynferðisofbeldi gegn þessum hópi barna.