Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun ÖBÍ afhent í tíunda sinn

By 3. desember 2016september 8th, 2023No Comments

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands voru veitt í tíunda sinn við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Hönnuður verðlaunagripsins er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.

Megintilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla.

Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum, flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja/stofnana og flokki umfjöllunar/kynningar. Verndari verðlaunanna er Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann gat ekki verið viðstaddur en sagði í kveðju til gesta að hvatningarverðlaunin hefðu falið í sér brýn og hugsjónarík skilaboð og heiðrað frumherja og brautryðjendur á fallegan hátt, fólk sem hefði gert samfélagið betra.

Í ávarpi við verðlaunaafhendinguna sagði Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, að árið 2016 hefði verið merkilegt í sögu mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi og vísaði þar til fullgildingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á Alþingi í haust.

Á alþjóðadegi fatlaðs fólks í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar sett 17 markmið til að marka þá framtíð sem fatlað fólk vill.

Í ræðu sinni vék Ellen máli sínu einnig að nýföllnum hæstaréttardómi í máli Salbjargar Óskar Atladóttur sem fékk ekki að velja að búa alfarið heima hjá sér. Dómurinn byggir meðal annars á því að SRFF hefur ekki verið lögfestur. ÖBÍ harmar þá niðurstöðu og sagði Ellen að enn sé mikilvæg vinna fyrir höndum.

Í flokki einstaklinga fékk Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, verðlaun fyrir störf sín í þágu fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra. Hann hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í málefnum fatlaðs fólks og verið óþreytandi í hugsjónastarfi sínu fyrir mannréttindum og sýnileika fatlaðs fólks.

Í flokki fyrirtækja/stofnana fékk Dagsól ehf./verslunin Next verðlaun fyrir metnaðarfulla starfsmannastefnu sem meðal annars felur í sér að ráða fólk með skerta starfsgetu. Um 20% starfsmanna fyrirtækisins eru með skerta starfsgetu sem er í samræmi við markmið fyrirtækisins. Aðgengi í verslun Next er til fyrirmyndar.

Í flokki umfjöllunar/kynningar fékk Tabú verðlaunin fyrir fræðslu og markvissa umfjöllun um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Tabú er femínísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Með umfjöllun sinni styður hreyfingin alla til þess að rjúfa þögnina og tala um það sem ekki má.

Við athöfnina voru einnig afhentir styrkir ÖBÍ til þess íþróttafólks sem keppti á Ólympíumóti fatlaðra sem haldið var í Brasilíu í september. Í haust ákvað stjórn ÖBÍ að styrkja ólympíufarana um 1 milljón króna samtals. Hver ólympíufari fékk því 200.000 króna styrk frá ÖBÍ.

Styrki fengu Helgi Sveinsson spjótkastari, Jón Margeir Sverrisson sundmaður, Sonja Sigurðardóttir sundkona, Thelma Björg Björnsdóttir sundkona og Þorsteinn Halldórsson bogfimimaður.

 

Aðrir sem hlutu tilnefningar:

Í flokki einstaklinga:Hanna Jónsdóttir fyrir frumkvöðlastarf í þágu fatlaðs fólks í Stykkishólmi og Karl Þorsteinsson fyrir sjálfboðastörf í þágu fatlaðs íþróttafólks.

Í flokki fyrirtækja/stofnana: IKEA fyrir hvetjandi starfsumhverfi sem meðal annars felur í sér að ráða fólk með skerta starfsgetur og Útmeð´a, samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717– tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á hárri tíðni sjálfsvíga meðal ungs fólks og hvetja til umræðu um geðheilbrigði.

Í flokki umfjöllunar/kynningar: Ferðabæklingar – fésbókarsíða fyrir ítarlega og virka umfjöllun um aðgengismál fatlaðs fólks og Upplifun fyrir alla – styrktarsöfnun fyrir Reykjadal sem haldin var á vegum meistaranema við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.