Halaleikhópurinn frumsýndi 4. nóvember síðastliðinn nýtt leikverk sem ber titilinn Farið. Verkið er eftir leikskáldið Ingunni Láru Kristjánsdóttur og í leikstjórn Margretar Guttormsdóttur.
Farið er pólitískt leikrit sem gerist um borð í 100 hæða, steinsteyptu geimskipi á ferð um geiminn. Farþegar eiga þar í samskiptum við kerfið um borð og mæta örlögum sínum þegar þeir rekast í horn og passa ekki inn í réttu rammana. Áhorfendur mega búast við sótsvartri háðsádeilu á þá þrautagöngu sem margir notendur velferðarkerfisins upplifa.
Farið er sýnt í Halanum í Hátúni 12 í Reykjavík. Miðaverð er kr. 2.500 (20% afsláttur fyrir lífeyrisþega). Miðasala er í síma 897 5007, í gegnum póstfangið midi@halaleikhopurinn.is eða á miðasöluvefnum tix.is
Fjallað er um verkið á Leiklistarvefnum. Þar segir að Farið sé gimsteinn í íslenskum áhugaleikhúsum sem vekji fólk til umhugsunar. „Maður fer að velta fyrir sér hvað einstaklingar sem ekki ná að púsla sér saman við þá kassa sem samfélagið setur þeim, þurfa í raun á að halda,“ segir höfundur greinarinnar Hörður S. Dan.