Öryrkjabandalagið hafnar alfarið orðum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, bæði á Facebook og í viðtali á RÚV og víðar um að skortur á samstarfsvilja bandalagsins við almannatrygginganefnd sé ástæða þess að að öryrkjar fengu ekki kjarabætur. Með yfirlýsingu sinni hefur ráðherra valið þá leið að kasta ryki í augu almennings með því að gera tilraun til þess að rugla saman tveimur ólíkum þáttum. Það stenst enga skoðun þegar sagt er að kerfisbreytingar séu skilyrði þess að bæta hag örorkulífeyrisþega.
ÖBÍ tók virkan þátt í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar. ÖBÍ skilaði meðal annars skýrslu til nefndarinnar í maí 2015 með tillögum bandalagsins að heildstæðu starfsgetumatskerfi og framfærslu á grundvelli þess. Lagðar voru til breytingar á kerfinu sem hefðu falið í sér sátt og málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða innan nefndarinnar. Nær ekkert tillit var tekið til tillagna ÖBÍ í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar. Niðurstöður nefndarinnar voru einfaldlega aðrar en þær sem ÖBÍ lagði til. Bandalagið gat því ekki skrifað undir skýrslu endurskoðunarnefndarinnar og skilaði séráliti.
Í framhaldi af skýrslu nefndarinnar var ákveðið að vinna að frumvarpi að lögum. Frumvarpið átti að grundvallast á tillögum nefndarinnar. Í starfi nefndarinnar voru allar hugmyndir ÖBÍ barðar niður og því var rökrétt að ÖBÍ tæki ekki þátt í vinnu við frumvarpið.
Seinni þáttur málsins er að kerfisbreytingar eru ekki skilyrði þess að hagur fólks sé bættur. Nauðsynlegar úrbætur, s.s. að taka úr krónu á móti krónu skerðingar (sérstöku framfærsluuppbótina) er hægt að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi og án þess að taka upp starfsgetumat.
Það ætti að teljast augljóst að ráðherra getur einfaldlega ekki varpað frá sér ábyrgðinni af því að hækka ekki lífeyrisgreiðslur til annarra en þeirra sem tóku þátt í slíkri ákvörðun. Grundvallaratriði málsins er að bættur hagur örorkulífeyrisþega er alltaf ákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma. ÖBÍ hefur aldrei og mun aldrei standa gegn bættum hag örorkulífeyrisþega. Að halda öðru fram er blekkingarleikur af verstu sort.
Nánar um málið:
ÖBÍ tók þátt í nefnd um endurskoðun laga um almannatrygginga sem starfaði frá nóvember 2013 til febrúar 2016. Eitt af meginverkefnum nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi var að fjalla um starfsgetumat sem komi í stað gildandi örorkumats. ÖBÍ ákvað að vera leiðandi í þessari vinnu og setti af stað vinnuhóp til að kortleggja hugmyndir um starfsgetumat. Vorið 2015 skilaði ÖBÍ inn skýrslunni Virkt samfélag, en í henni er að finna tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að uppfylla þurfi nokkur skilyrði áður en innleiðingarferli starfsgetumats getur hafist, en þau helstu eru:
- Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur.
- Lög sem banna mismunun á vinnumarkaði verði sett. Lögin skulu tryggja viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði og við atvinnuleit með skýrum hætti.
- Sett verði í lög að allt starfsgetumatsferlið og ákvarðanir um greiðslur á grundvelli þess lúti stjórnsýslulögum.
- Gerðar verði breytingar á almannatryggingum sem tryggja að allir lífeyrisþegar geti framfleytt sér og lifað mannsæmandi lífi í íslensku samfélagi.
- Víxlverkun í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða verði afnumin.
- Tryggja fjölbreytt úrval hlutastarfa og meiri sveigjanleika á vinnumarkaði sem nýtist fólki með skerta starfsgetu.
Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar og sérálit ÖBÍ og stjórnarandstöðuflokkanna
Í febrúar 2016 skilaði formaður endurskoðunarnefndarinnar skýrslu til félags- og húsnæðismálaráðherra með tillögum sem fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands í nefndinni skrifuðu ekki undir. Meirihluti nefndarinnar komst að niðurstöðum þar sem ekkert tillit var tekið til tillagna ÖBÍ. ÖBÍ skilaði inn séráliti ásamt fulltrúum Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs.
Megingagnrýni ÖBÍ á frumvarpsdrög félags- og húsnæðismálaráðherra
Í júlí 2016 voru til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar. Í frumvarpsdrögunum segir að frumvarpið byggi á þeim tillögum sem breið sátt var um í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar. Í umsögn ÖBÍ er vakin athygli á því að margt sem kemur fram í drögunum er alls ekki það sem sátt var um og einnig vantaði inn í frumvarpsdrögin grundvallarþætti sem algjör sátt var um í nefndinni, t.d.:
- Afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar fyrir alla lífeyrisþega.
- Afnám innbyrðis skerðinga greiðsluflokka.
- Afnám víxlverkana í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða.
- Stoðþjónustu- og starfsgetumat verði aðskilið.
- Tilskipanir ESB um bann gegn mismunun á vinnumarkaði verði innleiddar í lög á Íslandi.
Áður en farið verður af stað í innleiðingarferli starfsgetumats þarf að uppfylla ofangreinda þætti, sem felast meðal annars í úrbótum á lagaumhverfinu, en þeir eru ekki tilgreindir í frumvarpsdrögunum. Allt eru þetta þættir sem myndu bæta stöðu örorkulífeyrisþega, náist þeir í gegn.
Í frumvarpsdrögunum var útfærsla starfsgetumats enn of óljós til að raunhæft væri að taka upp nýtt kerfi, jafnvel þó innleiðingarferlið sé nefnt „samstarfsverkefni.“ Hugtakið „starfsgetumat“ er auk þess enn óskilgreint. Gagnrýni ÖBÍ beindist meðal annars að því að staðið hafi til að innleiða starfsgetumat samhliða þróun þess og að hefja greiðslur samkvæmt starfsgetumati í byrjun árs 2017.
Þá er vakin athygli á því að þrepaskipting starfsgetumats var eitt umdeildasta málefni nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar. Því skýtur skökku við að þessi skipting sé lögð til í frumvarpsdrögum sem á að byggja á tillögum sem breið sátt var um í nefndinni.
Aðgengi að vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu
50% starfsgeta eða aukin starfsgeta þýðir ekki að viðkomandi fái starf við hæfi eða komist á vinnumarkaðinn. Með frumvarpsdrögunum voru lagðar ríkar skyldur og skilyrðingar á einstaklinga með skerta starfsgetu. Á sama tíma voru engin ákvæði um skyldur vinnuveitenda, til að mynda til að laga sig að einstaklingum með skerta starfsgetu í vinnusambandi. Í dag er vinnumarkaðurinn, bæði opinberi og almenni geirinn, ekki reiðubúinn að veita fólki með skerta starfsgetu hlutastörf og/eða bjóða upp á sveigjanleika í starfi. Því er ljóst að fjöldi fólks með skerta starfsgetu verður áfram án atvinnu ef ekki er farið í frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda og sérstakar aðgerðir með Samtökum atvinnulífsins, stéttarfélögum og tengdum aðilum til að bæta aðgengi fólks með skerta starfsgetu að vinnumarkaðnum. Í frumvarpsdrögunum er ekki tekið á því hvernig framfærslu þeirra einstaklinga skuli háttað sem metnir verða með 50-74% starfsgetu og eru án atvinnutekna.
Gert ráð fyrir 50 milljónum kr. á ári í kostnaðarmati sem fylgdi frumvarpsdrögunum
Í kostnaðarmati með frumvarpsdrögunum var ekki gert ráð fyrir öðrum kostnaði ríkissjóðs samhliða innleiðingu starfsgetumat en 50 milljónum kr. á ári í þrjú ár vegna samstarfsverkefnis/ tilraunaverkefnis fyrir árin 2017-2020. Kostnaðurinn átti að skiptast á Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun. Gert var ráð fyrir verkefnastjóra og 2-4 öðrum starfsmönnum auk annars kostnaðar. Ekki var gert ráð fyrir fjármunum til að bæta kjör fólks með skerta starfsgetu samhliða innleiðingu starfsgetumats, enda engar breytingar í þá veru að finna í frumvarpsdrögunum.
Frumvarp um breytingar á almannatryggingum lagt fram á Alþingi án ákvæða um starfsgetumat og kjarabóta fyrir örorkulífeyrisþega
Í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í byrjun september síðastliðnum höfðu ákvæði um svokallað starfsgetumat verið fjarlægð. Í frumvarpinu voru engar réttar- og/eða kjarabætur fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, þrátt fyrir að endurskoðunarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að þörf væri á kjarabótum hjá þessum hópum lífeyrisþega.
Að lokum
Fara verður strax í að bæta kjör lífeyrisþega með verulegri hækkun þannig að lífeyrir almannatrygginga dugi fyrir framfærslu í íslensku samfélagi, taka út krónu á móti krónu skerðingar og afnema víxlverkun í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þessar úrbætur er hægt að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi og án þess að taka upp starfsgetumat. Ekki þurfa að koma til miklar kerfisbreytingar svo hægt sé að koma til móts við þá nauðsynlegu réttarbót sem örorkulífeyrisþegar hafa kallað eftir í áraraðir. ÖBÍ hefur lagt áherslu á að ef fara á í jafn afdrifaríkar kerfisbreytingar og starfsgetumatskerfið er þá er mikilvægt að fólkið sem reiðir sig á kerfið hafi ávinning af þeim kerfisbreytingum og að réttur þeirra sé tryggður í hvívetna. Slíkar breytingar krefjast vandaðs undirbúnings og þarf sá undirbúningur að hafa farið fram áður en innleiðingarferlið hefst og með raunverulegu samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.