Allir flokkar sem bjóða fram í Alþingiskosningunum 29. október næstkomandi fengu spurningalista senda á dögunum frá ÖBÍ sem inniheldur spurningar um stefnu flokkanna. Þær eru til viðbótar því sem spurt var um á opnum fundi ÖBÍ með frambjóðendum 8. október síðastliðinn. Spurt var nánar um heilbrigðismál, aðgengi og kjaramál. Húmanistaflokkurinn er þriðja framboðið sem sent hefur svör við þessum spurningum ÖBÍ.
Viðbótarspurningar frá málefnahópum ÖBÍ:
Kjaramál
Spurning 1:
Barnlaus einstaklingur þarf að minnsta kosti 390.250 kr. á mánuði fyrir skatt, m.v. framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara að viðbættum húsnæðiskostnaði, sbr. tafla 1. Viðmið þetta er ætlað til styttri tíma heldur en viðmið ýmissa annarra t.d. dæmigerð viðmið velferðarráðuneytisins. Örorkulífeyrisþega sem fær óskertan lífeyri almanna- trygginga vantar 177.214 fyrir skatt á mánuði til að ná þessu viðmiði. Ætlar þitt framboð að hækka örorkulífeyri almannatrygginga þannig að örorkulífeyris- þegar verði ekki með lægri tekjur en 390.250 kr. krónur á mánuði í janúar 2017? Ef já, hvernig yrði hækkunin útfærð, hvenær kæmi hún til framkvæmdar?
Tafla 1. Framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara
Mánaðarleg útgjöld |
134.108 |
Húsnæðiskostnaður* |
157.500 |
Ýmis kostnaður |
5.000 |
Samtals |
296.608 |
Tekjur fyrir skatt (án frádráttar iðgjalds) |
390.250 |
Ráðstöfunartekjur af 390.250 kr. á mán. |
296.608 |
*Inn í upphæðinni fyrir húsnæðiskostnað er einnig rafmagn og hiti og ýmis gjöld s.s. fasteignagjöld og tryggingar aðrar en bílatryggingar.
Svar Húmanistaflokksins:
Húmanistaflokkurinn mun setja leiðréttingar á kjörum öryrkja meðal þeirra forgangs mála sem þeir beina sér á Alþingi ef hann verður kosin til þings. Ef við mættum ráða myndum við láta hana koma til framkvæmda í byrjun kjörtímabilsins.
Spurning 2:
Eitt af einkennum almannatrygginga á Íslandi eru miklar tekjutengingar við allar aðrar tekjur. Lífeyrisþegar upplifa því mikla ósanngirni gagnvart þeirri viðleitni sinni að afla viðbótartekna og að kerfið sé fjandsamlegt gagnvart atvinnuþátttöku þeirra og/eða sparnaði. Örorkulífeyrisþegar geta verið í þeirri stöðu að tekjur allt að rúmum 44 þús. krónu á mánuði annars staðar frá bæta engu við ráðstöfunartekjurnar þar sem greiðslur frá TR lækka um sömu upphæð. Hvað ætlar þitt framboð að gera til að draga úr og/eða afnema tekjutengingar í almannatryggingakerfinu (s.s. að hækka frítekjumörk, lækka skerðingarhlutfall, afnema krónu á móti krónu skerðingar, o.fl. )? Hvernig yrði það útfært og hvenær á kjörtímabilinu kæmi það til framkvæmda?
Svar Húmanistaflokksins:
Húmanistaflokkurinn er á móti öllum tekjutengingum í Almannatryggingakerfinu og myndi beita sér fyrir því að þær yrðu afnumdar í byrjun kjörtímabilsins sem forgangsmál.
Spurning 3:
Fram til 1.1. 1988 var ekki greiddur skattur (tekjuskattur og útsvar) af örorkulífeyri almannatrygginga , þar sem persónuafsláttur var hærri. Örorkulífeyrisþegi með heimilisuppbót fékk 25% af persónuafslætti til að ráðstafa upp í aðrar tekjur eða fékk persónuafsláttinn greiddan út. Árið 2016 eru örorkulífeyrisþegar að greiða 37,13% skatt (tekjuskatt og útsvar) af mánaðatekjum umfram tæp 140.000 kr.[1] á mánuði. Kjarahópurinn leggur til að tekjur undir 310.402 kr. verði ekki skattlagðar, og er hér miðað er við uppreiknaðan persónuafslátt frá 1988. Hefur þitt framboð á stefnuskránni að uppreikna persónuafsláttinn frá 1988 til dagsins í dag og leiðrétta hann? Ef já, hvernig yrði það útfært og hvenær á kjörtímabilinu kæmi það til framkvæmda?
Svar Húmanistaflokksins:
Húmanistaflokkurinn hefur skýra stefnu um að ekki skuli greiddir skattar af tekjum sem eru jafnháar eða lægri en löggilt framfærsluviðmið. Við myndum þannig ekki leggja skatt á tekjur undir 310.302 krónum á mánuði.
Í rauninni höfum við svarað þessu með afstöðu okkar um að tekjur undir lögfestri framfærsuviðmiðun séu ekki skattlagðar. Ef uppreikningur á persónuafslættinum frá 1988 yrði minni en sem svarar því myndum við ekki samþykkja að fara eftir því.
Heilbrigðismál
Spurning 1:
Munið þið beita ykkur fyrir eflingu heilsugæslunnar? Já, hvenær, hvernig, í hvaða skrefum? Nei, af hverju ekki?
Svar Húmanistaflokksins:
Við munum beita okkur fyrir eflingu heilsugæslunnar og alls heilbrigðiskerfisins. Við höfum hins vega bent á að á meðan bankarnir innheimta vexti af þjóðarheimilinu ár hvert sem svarar til helmings fjárlaga hverju sinni þá mun þjóðin aðeins hafa restina til að sinna samfélagslegum verkefnum eins og heilbrigðiskerfin. Þetta er eins og að skipta þjóðartertunni og byrja með að skera af henni helmingin og senda til forríkra eigenda bankanna út úr hagkerfinu og upp til hinna ofurríku eigenda bankanna sem eru margir hverjir í hópi þess eins prósents sem á mestallar eignir heimsins. Húmanistaflokkurin bankakerfi sem er ekki byggt á að græða á tilveru fólks og við viljum vaxtalaust bankakerfi.
Spurning 2:
Munið þið beita ykkur fyrir því að lækka kostnað vegna nauðsynlegra hjálpartækja og sjúkra, iðju-, og talþjálfunar? Já, hvenær, hvernig, í hvaða skrefum? Nei, af hverju ekki?
Svar Húmanistaflokksins:
Húmanistaflokkurinn bendir á að aðstoð af þessum toga eru áskilin í 76. grein stjórnarskrárnnar. Við munum gera að forgangsmáli að lagfærð verði stjórnaskrárbrot. Þess vegna kemur ekkert annað til greina að okkar mati en að kostnaður vegna nauðsynlegra hjálpartækja og sjúkra, iðju-, og talþjálfunar verði greiddur alfarið af ríkinu en ekki af notendum þessarar þjónustu.
Aðgengismál
Spurning 1:
Munið þið beita ykkur fyrir því að breyta 30.gr fjölmiðlalaga nr. 38/2011 þannig að allt íslenskt sjónvarpsefni verði sent út textað svo hægt sé að kalla fram á síðu 888? Já, þá hvenær? Nei, af hverju ekki?
Svar Húmanistaflokksins:
Já, tvímælalaust.
Spurning 2:
Ekkert eftirlit er með því að aðgengiskröfur séu uppfylltar eftir lokaúttekt á mannvirkjum. Munið þið beita ykkur fyrir því að sett verði á fót aðgengiseftirlit með viðurlögum sem slökkvilið myndi sinna samhliða eldvarnareftirliti? Já, þá hvenær? Nei, af hverju ekki?
Svar Húmanistaflokksins:
Já við viljum að aðgengiskröfur séu uppfylltar án tafar.
Spurning 3:
Hversu margar kosningaskrifstofur rekur flokkurinn fyrir alþingiskosningarnar? Eru þær fyllilega aðgengilegar fyrir fatlað fólk, s.s. P-merkt bílastæði, lágir þröskuldar, salerni, rampar, o.s.frv.?
Svar Húmanistaflokksins:
Húmanistaflokkurinn rekur enga kosningaskrifstofu í þessum kosningum.
Spurning 4:
Úttekt hefur verið gerð á heimasíðu flokksins m.t.t. aðgengis fyrir blinda, sjónskerta og hreyfihamlaða. Heimasíðan féll í þeirri úttekt og áskorun um að bæta aðgengi að heimasíðunni hefur ekki verið tekið. Stendur til að aðgengisbæta heimasíðuna fyrir alþingiskosningar? Nei, af hverju ekki?
Svar Húmanistaflokksins:
Því miður mun okkur ekki vinnast tími til að vinna þetta verk, við erum mjög fá og slíkt verk þarf að vinna með samvinnu margra en við höfum ekki mannskap í það nú. Við þökkum hins vegar ábendingar ÖBÍ þessu sambandi og munum vinna að þessum breytingum eftir kosningar.