Ekki er orð um það í greininni að hinn 1. janúar 2016 var gerð eignaupptaka á milljóna eða tugmilljóna króna eignum öryrkja í menntasjóðum VR. í VR blaðinu segir orðrétt
„Það felur í sér að félagsmenn sem eiga réttindi í sjóðnum geta sótt um styrk samkvæmt því kerfi sem hentar þeim best. Þannig fá þeir sem eiga mörg uppsöfnuð stig í sjóðnum tækifæri til þess að nýta þau til loka árs 2016, en á sama tíma fá þeir félagsmenn sem hagnast meira á nýjum reglum tækifæri til þess að sækja um samkvæmt þeim.“ Segir orðrétt í VR blaðinu.
Þetta er eignaupptaka á menntasjóði. Hvað er að hjá einu stærsta verkalýðsfélagi landsins VR, sem á að standa fyrir virðingu og réttlæti? Ræðst á veika og slasaða félaga með svona lágkúrulegum hætti og þetta er gert með aðstoð og samþykki Samtaka atvinnulífsins (SA) sem eru með VR í stjórn sjóðanna.
Stig í sjóðina eru hluti af launagreiðslum og þar af eign viðkomandi og á hans kennitölu í sjóðnum. Mín eign var hinn 31. desember 2015 á minni kennitölu hjá sjóðnum 251 stig sem er að verðmæti 251.000 krónur. Hinn 1. janúar 2016 var þessi eign orðin samkvæmt nýjum reglum 0 stig. Er þetta ekki bara þjófnaður á eign minni, sem ég hef átt í á þriðja tug ára? Er hægt að gera upptæka 250.000 króna eign mína sem ég hef safnað og átt í um 30 ár á einu augnablikki.
Hvar er virðingin fyrir öryrkjunum hjá VR? Sett lög á öryrkja og þeim bannað að vera í trúnaðarráði hjá VR og bjóða sig fram til stjórnar. Réttur sem við höfðum í fjölda ára í trúnaðarráði tekinn af okkur vegna fordóma og eineltis.
JÁ, það er einelti að setja á okkur lög til að sparka okkur út úr trúnaðarráði.
Á aðalfundi VR 2015 lagði ég fram tillögu um að þessi eignaupptaka væri ekki gerð eða að okkur öryrkjunum yrði gefinn réttur á að nota þessa eign okkar, með því að borga bara 10% eða ekkert af mennta/tómstundanámskeiði að eigin vali. Þetta gerði ég til þess að við öryrkjar gætum notað þessa eign okkar áður en hún yrði gerð upptæk. Svar fékk ég hinn 9. apríl 2015 vegna fyrirspurnar minnar og þar segir orðrétt:
„Stjórn VR barst beiðni um að taka til umfjöllunar bréf sem barst stjórn á aðalfundi 2015. Stjórn fjallaði um bréfið og sýnir stöðu hans skilning, en að svo komnu er ekki unnt að verða við óskum Guðmundar. Bað stjórn starfsmann VR að svara bréfinu.“
Erindið fór aldrei til stjórnar Starfsmenntasjóðs SVS eða SV. Hvers vegna ekki og hvers vegna var ekki unnt að verða við óskum mínum að svo komnu máli? Var það til þess að þurfa ekki að taka á málinu og þá til að geta keyrt eignaupptökuna í gegn hinn 1. janúar 2016?
Hvers vegna er þeim öryrkjum sem eiga í sjóðum SV gefið ár lengur en okkur hinum til að nýta sér eign sína í þeim sjóði? Er það vegna þess að það eru engir öryrkjar þar? Hvers vegna er verið að mismuna á milli þessara sjóða og er það ekki ólöglegt?
Í starfmenntasjóðum VR eru um 500.000.000 króna. Já, þar er rúmlega hálfur milljarður króna. Í hvaða vasa á eignaupptakan á eign öryrkja í þessum sjóðum að lenda? Hvert á þessi eignarupptaka að fara og í hvað og hvað er þetta há upphæð?
Það er engin þörf á því að gera þetta á þennan ógeðfellda hátt og öllum til skammar sem að því hafa komið. Á sama tíma er VR í Virk endurhæfingu með SA og ASÍ og hvernig samræmist þessi ógeðfellda eignaupptaka virkri endurhæfingu?
Eignaupptaka
Þá er með þögn verklýðshreyfingarinnar gerð stórfelld eignaupptaka á lífeyrissparnaði okkar. Lögþvingaður lífeyrissparnaður upp á 70.000 króna skertur og skattaður krónu á móti krónu í núll af ríkinu. Þeir sem hafa aðeins hærri lífeyri mega þakka fyrir að halda eftir 10% af lífeyrinum og þola skatta og skerðingar upp á um 90 til yfir 100%.
Á sama tíma eru helmingi hærri listamannalaun („laun“) ekki bætur, þó þau koma að fullu frá ríkinu sem verktakalaun óskert af öllum tekjum. Lögþvingaður lífeyrissparnaður („sparnaður“) skertur og skattaður 90 til 100%, en ekki 351.000 króna listamannalaun. Öryrkjar verða að tóra á helmingi lægri lífeyrislaunum sem eru bæði sköttuð og skert og verða að velja um að eiga fyrir mat, lyfjum eða fara til læknis.
Bændalaun og listamannalaun eru ekki skert um krónu vegna annarra tekna en lífeyrislaun skert um 40%. Hvers vegna er þessi mismunun og er þetta ekki brot á stjórnarskránni, sem bannar mismunun?
Launþegar fá afturvirkar hækkanir fyrir áramót og eftir, en þær má gera upptækar hjá eldri borgurum og öryrkjum og það með samþykki verkalýðshreyfingarinnar. Hvar er „virðingin“ og „réttlætið“ hjá VR, ASÍ, BSRB og SA þegar verið er að sparka fjárhagslega í eldri borgara og öryrkja?
Öryrki og formaður BÓTar.