Skip to main content
Frétt

Efnislegur skortur barna á Íslandi

By 21. janúar 2016júní 8th, 2023No Comments

Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF á Íslandi líða 9,1 % barna á aldrinum 1-15 ára á Íslandi efnislegan skort og hefur þeim fjölgað verulega á síðustu árum. Niðurstöður skýrslunnar Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort byggja á svokallaðri skortgreiningu UNICEF sem er aðferð sem var þróuð af rannsóknarstofnun UNICEF og greinir marghliða skort meðal barna. Hagstofa Íslands vann greininguna að beiðni UNICEF á Íslandi og greindi svör úr lífskjararannsóknum Evrópusambandsins sem þegar lágu fyrir og hafði verið safnað árin 2009 og 2014.

Efnislegur skortur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009

Árið 2009 liðu 4% barna hér á landi efnislegan skort en árið 2014 var hlutfallið komið upp í 9,1%. 1.600 börn (2,4%) líða verulegan skort og hefur þessi tala þrefaldast frá því árið 2004.

Börn foreldra í hlutastörfum og atvinnulausra líða mestan skort

Mestan skort á meðal barna á Íslandi er að finna hjá þeim sem eiga foreldra sem vinna hálft starf eða minna eða eru ativnnulausir. Næst á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en 30 ára og síðan börn foreldra sem eru í leiguhúsnæði.

Flest börn líða skort á sviði húsnæðis

Skortgreining UNICEF skiptir skorti barna upp í sjö svið en það svið sem börn á Íslandi líða mestan skort á er húsnæði og þar á eftir félagslífi. 5,1 % barna á Íslandi geta ekki haldið upp á viðburði eins og t.d. afmæli sitt og boðið vinum sínum heim. Hjá börnum sem búa við verulegan skort fer hlutfallið hins vegar upp í 48,6%.

Á vef UNICEF segir að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi ítrekað bent íslenskum stjórnvöldum á skort á víðtækri og reglulegri gagnaöflun um stöðu barna hér á landi. UNICEF á Íslandi mælist til þess að Hagstofu Íslands verði fengið það verkefni að mæla árlega efnislegan skort meðal barna og nota til þess skortgreiningu UNICEF.