Skip to main content
Frétt

Alþingismenn eru kjararáð lífeyrisþega

By 3. desember 2015No Comments
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ og María Óskarsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál skrifa gein í Morgunblaðið í dag 3. desember.

Í dag er alþjóðadagur fatlaðs fólks 3. desember. Það var í október 1992 sem Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að þessi dagur yrði tileinkaður fötluðu fólki og er hann notaður sem baráttudagur og hvatningardagur um heim allan til að benda á aðstæður fatlaðs fólks. Einnig hefur dagurinn verið notaður til að benda á það sem vel hefur verið gert, til dæmis hafa hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) verið afhent á þessum degi. Í dag verða verðlaunin afhent í 9. skipti.

Á næstu dögum fer fram 2. umræða um fjárlög 2016. Í þeim er boðað að lífeyrisþegar fái 9,4% hækkun, sem tekur gildi 1. janúar 2016. Það þýðir að einstaklingar sem reiða sig eingöngu á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins munu fá um það bil 11.000 kr. hækkun í vasann þegar búið er að greiða opinber gjöld. Lágmarkslaun hækkuðu 1. maí um tæp 20.000 kr. eftir skatta, rétt er að geta þess að einungis 1% launamanna er á lágmarkslaunum á landinu. Þetta þýðir enn meiri kjaragliðnun milli lífeyrisþega og launamanna. Nú er því svo komið að óskertur lífeyrir almannatryggnga nemur tæpum 80% af lægstu launum og aðeins um 37% af meðallaunatekjum. Það var einnig köld vatnsgusa sem lífeyrisþegar fengu þegar kjararáð ákvað að embættismenn og alþingismenn fengu 9,3% hækkun afturvirkt frá 1. mars.

Lífeyrisþegar, það eru örorku- og ellilífeyrisþegar, eru orðnir hundleiðir á því að alltaf sé talað um prósentutöluhækkanir og að lífeyrisþegar hækki jafn mikið og aðrir í þjóðfélaginu. Prósentur af lágum lífeyri eru líka lágar upphæðir. Frá því núverandi ríkisstjórn tók við, í maí 2013, hefur óskertur lífeyri almannatryggingar hækkað um rúm 6% sem þýðir hækkun ráðstöfunartekna frá janúar 2013 um rúmlega 10 þús. kr. á mánuði. Þetta er nú öll hækkunin.

Þær hækkanir sem boðaðar eru nú koma einnig allt of seint. Af hverju geta lífeyrisþegar ekki fengið afturvirkar hækkanir eins og aðrir þjóðfélagshópar? Fólk sem þarf að lifa á 170 til 190 þúsund krónum á mánuði nær ekki að framfleyta sér með viðunandi hætti. Við hjá ÖBÍ sjáum að það fólk sem leitar til okkar er í mikilli örvæntingu og neyð um hver mánaðarmót og sér hreinlega ekki fram á að geta látið heimilisbókhaldið ganga upp, til dæmis með því að kaupa sér mat, sækja sér heilbrigðisþjónustu eða leysa út nauðsynleg lyf.

Alþingismenn þurfa að átta sig á því að það er mjög dýrt fyrir samfélagið að halda fólki í fátæktargildru og fullyrða undirrituð að það er mun dýrara þegar til lengri tíma er litið. Nýverið kannaði Gallup viðhorf almennings til hækkun lífeyris fyrir ÖBÍ. Fram kom að 90% svarenda treysta sér ekki til að lifa á ríflega 170 þúsund krónum á mánuði. Einnig kom fram að 95% voru þeirrar skoðunar að lífeyrisþegar ættu að fá sömu eða hærri krónutöluhækkun og lágmarkslaun. Svarendur í þessari könnun voru almenningur og má gefa sér að það séu kjósendur allra stjórnmálaflokka.

Það er von undirritaðra að alþingismenn úr öllum flokkum sameinist um að bæta kjör lífeyrisþega með því að bæta verulega í það fjármagn sem á að fara til lífeyrisþega á næsta ári. Það væri mjög ánægjulegt ef myndaðist þverpólitísk sátt á Alþingi um að láta lífeyrisþega ekki sitja eftir enn eina ferðina. Ef ekkert verður bætt í munu lífeyrisþegar dragast enn frekar aftur úr öðrum þjóðfélagshópum og það væri afskaplega döpur niðurstaða. Það má með sanni segja að alþingismenn eru einhvers konar kjararáð lífeyrisþega. Lífeyrisþegar hafa ekki samningsrétt og geta ekki farið í verkfall, kjararáð úrskurðar ekki um hækkun lífeyris og því er boltinn hjá Alþingi.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ
María Óskarsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál