Við uppgjör ársins 2014 fékk hópur örorkulífeyrisþega kröfu hjá TR vegna eingreiðslu úr lífeyrissjóði. Eingreiðslur lífeyrissjóða ná í ófáum tilvikum marga mánuði og jafnvel nokkur ár aftur í tímann. Kröfurnar geta numið háum upphæðum og komið mjög illa við lífeyrisþega í þessari stöðu. En hvað er til ráða?
Hægt er að óska eftir útreikningi hjá TR á dreifingu eingreiðslna
Örorkulífeyrisþegar í þessari stöðu geta haft samband við TR og óskað eftir útreikningi á því hvort það komi betur út að láta dreifa eingreiðslunni á það tímabil sem hún er greidd fyrir eða ekki. Þetta á eingöngu við ef eingreiðsla er einnig fyrir árið eða árin á undan (t.d. einstaklingur fær eingreiðslu á árinu 2014 fyrir allt árið eða hluta ársins 2013). Til að TR geti afgreitt beiðnina þarf að senda með sundurliðun eingreiðslunnar frá lífeyrissjóðnum (eða lífeyrissjóðunum ef um eingreiðslu frá fleiri en einum sjóði er að ræða), þar sem fram kemur upphæð greiðslna fyrir hvern og einn mánuð og heildarupphæð greiðslna fyrir hvert ár.
Hægt er að óska eftir að RSK taki framtöl upp
Í þeim tilvikum þar betur kemur út að láta dreifa eingreiðslunni er hægt að óska eftir því hjá Ríkisskattstjóra (RSK) að framtölin sem um ræðir verði tekin upp og eingreiðslunni dreift á árin. Með beiðninni til RSK þarf einnig að fylgja áðurnefnd sundurliðun lífeyrissjóðsgreiðslna. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að ef eingreiðslunni er dreift mun stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars hækka þau ár sem tekjunum er dreift á og lækka árið sem eingreiðslan var greidd. Slíkt getur haft áhrif til lækkunar greiðslna, s.s. barnabóta, húsaleigubóta, vaxtabóta, þau ár sem tekjuskattsstofn hækkar. Við bendum því fólki á að kynna sér þau mál vel hjá RSK og einnig að fá útreikning frá TR áður en óskað er eftir upptöku framtala hjá RSK.
Nýr endurreikningur hjá TR
TR getur endurreiknað uppgjör eftir að niðurstaða frá RSK hefur borist. Tilgangur þessa fyrir örorkulífeyrisþega er að fá kröfu, við uppgjör ársins sem eingreiðsla var greidd, lækkaða og þá oft verulega. Slíkt borgar sig að sjálfsögðu ekki nema að útreikningar sýna að við dreifinguna muni ekki myndast hærri kröfur fyrir árin á undan, þ.e. árin sem eingreiðslunni er dreift á.
Einungis lífeyrissjóðstekjur sem greiddar eru fyrir tímabil eftir að greiðslur hófust hjá TR eiga að hafa áhrif til lækkunar greiðslna frá TR. Ef greiðslur frá lífeyrissjóði ná lengra aftur í tímann en fyrstu lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, þá er líklegra að betur komi út að láta dreifa eingreiðslunni.
Dæmi: Örorkulífeyrisþegi fær eingreiðslu frá lífeyrissjóði í desember 2014. Þessi einstaklingur fær fyrstu greiðslur frá TR (endurhæfingarlífeyri) frá 1. apríl 2013. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar ná hins vegar aftur til 1. nóvember 2012. Lífeyrissjóðstekjur fyrir tímabilið frá nóvember 2012 til apríl 2013 eiga ekki að hafa áhrif á útreikning TR þar sem þær eru greiddar fyrir tímabil fyrir fyrsta mat.