Skip to main content
Frétt

Fjórðung öryrkja skortir efnisleg gæði

By 7. júlí 2015No Comments

Frétt á RÚV um að hlutfall fólks sem skortir efnisleg gæði á Íslandi hafi dregist saman úr 6,6% 2013 í 5,5% árið 2014. Skorturinn sé þó mun meiri á meðal öryrkja eða 23%. Einstæðir foreldrar og börn þeirra standi einnig illa og sé hlutfallið í þeim hópi 20,3%.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu. Hlutfallið er það sama á meðal öryrkja og árið 2013 en hlutfall þeirra sem líður verulegan skort á efnislegum gæðum hefur meira en tvöfaldast milli ára. Hlutfallið var 5,2% árið 2013 en 11,3% árið 2014.

Til samanburðar dregst hlutfall námsmanna og atvinnulausra sem skortir efnisleg gæði mikið saman milli ára. Hlutfall námsmanna var 7,6% árið 2013 en 4,1% árið 2014. Þá fór hlutfall þeirra sem líða verulegan skort úr 1,7% í 0,8%. Hjá atvinnulausum fór hlutfall þeirra sem líða efnislegan skort úr 21,1% árið 2013 niður í 12,5% árið 2014. Hlutfall þeirra sem líða verulegan skort á meðal atvinnulausra lækkaði sömuleiðis úr 10% í 4%.

Þá segir í tilkynningu Hagstofunnar að skortur á efnislegum gæðum sé tíðari á meðal einstæðra foreldra og barna þeirra en á meðal annarra heimilisgerða. Árið 2014 skorti 20,3% þessa hóps efnisleg gæði. Til samanburðar má nefna að hlutfallið var 4,6% á meðal þeirra sem bjuggu á heimilum tveggja fullorðinna og tveggja barna. Þá var hlutfallið nokkuð hátt á meðal einstaklinga undir 65 ára aldri sem búa einir á heimili, eða 15,1%.

Staðan hjá eftirlaunaþegum versnar einnig á milli ára. Hlutfall þeirra sem líða efnislegan skort var 0,9% árið 2013 en 2,5% árið 2014. Þá var hlutfall þeirra sem líða verulegan skort 0,3% árið 2013 en 0,4% árið 2014.

Öryrkjar og einstæðir foreldrar líða því efnislegan og verulegan efnislegan skort langt umfram aðra þjóðfélagshópa samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Ísland stendur þrátt fyrir það hvað best alla Evrópulanda heilt yfir. Fimmti minnsti skortur efnislegra gæða er hér á landi. Aðeins Lúxemborg, Noregur, Svíþjóð og Sviss standa betur.

Úttekt Hagstofunnar má lesa í heild sinn hér.

Skilgreining skorts á efnislegum gæðum:

Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum gæðum eru skilgreindir þannig að þeir búi á heimili þar sem þrennt af eftirfarandi á við:

1. Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum. 
2. Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni. 
3. Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag. 
4. Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. 
5. Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma. 
6. Hefur ekki efni á sjónvarpstæki. 
7. Hefur ekki efni á þvottavél. 
8. Hefur ekki efni á bíl. 
9. Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu. 

Ýmsar slóðir: