Skip to main content
SRFFUmsögn

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

By 8. apríl 2025apríl 10th, 2025No Comments
Auglýsingaspjald með textanum: Örlögin eru í ykkar höndum stjórnvöld. Lögfestum samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna tillögu frumvarpsins um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í mörg ár hefur ÖBÍ beitt sér fyrir því að samningurinn verði lögfestur. Um er að ræða skref í átt að aukinni virðingu fyrir mannréttindum fatlaðs fólks. Með lögfestingu samningsins verður tryggt að fatlað fólk á Íslandi geti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti, til dæmis fyrir dómstólum.

Þótt lögfesting samningsins sé mikið framfaraskref er ekki þar með sagt að með henni vinnist fullnaðarsigur í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Enn þarf að tryggja að ríki og sveitarfélög uppfylli skyldur sínar samkvæmt ákvæðum samningsins. Samkvæmt rannsóknum er ótvírætt að staða fatlaðs fólks er almennt verri en annarra. Nýlegar skýrslur Ríkisendurskoðunar og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála varpa sömuleiðis alvarlegu ljósi á stöðu lögbundinnar þjónustu til handa fötluðu fólki eða öllu heldur skorti á þjónustu. Ljóst er því að mikilvægt er að halda áfram vinnu að því að tryggja lögbundna þjónustu, raunverulegt jafnrétti og réttlæti fyrir fatlað fólk og hvetur ÖBÍ ríki og sveitarfélög til að vinna vel saman.

ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að valfrjáls bókun við samninginn verði fullgild og lögfest. Með henni yrði fötluðu fólki gert kleift að beina kvörtun til sérfræðinefndar um réttindi fatlaðs fólks á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna brota á samningum. Nefndin gefur út álit í slíkum málum og er ætlað að stuðla að réttri framkvæmd á samningnum.

Þá ítrekar ÖBÍ mikilvægi þess að samráðskylda stjórnvalda, sbr. 3. mgr. 4. gr. SRFF, verði virt sem grundvallarregla í málaflokknum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari sjónarmiðum á seinni stigum málsins.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
187. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 8. apríl 2025