Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Húsaleigulög (almenn skráningarskylda leigusamninga og breyting leigufjárhæðar)

By 8. apríl 2025No Comments
Loftmynd af Reykjavík

„ÖBÍ styður fyrirhugaðar breytingar á skilyrðum skattaívilnunar leigusala vegna leigutekna …“

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir markmið frumvarpsins um að stuðla að aukinni langtímaleigu, fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, betri upplýsingum um leigumarkaðinn og aukið gagnsæi um upplýsingar í leigusamningum. Samkvæmt leigumarkaðskönnun Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar (HMS) frá 2024 leigja 68% leigjenda af einstaklingum, ættingjum eða vinum. Þegar sú tala er borin saman við leiguverðsjá HMS fyrir mars 2025 þá eru fjöldi leigusamninga, hjá leigusölum í flokknum einstaklingar, einungis 35% skráðra leigusamninga. Raunveruleg stærð íslenska leigumarkaðarins er óleyst ráðgáta og mikilvægt að allir hagaðilar hafi aðgang að áreiðanlegum tölfræði upplýsingum um fjölda leigjenda, dreifingu eftir tegund leigusala og möguleg áhrif á íslenskt samfélag. Í því ljósi er vert að minnast á nýja mánaðarskýrslu HMS fyrir mars 2025 sem tilgreind er í greinargerð frumvarpsins, en þar segir að um 37.000 fullorðnir einstaklingar gætu verið vantaldir á leigumarkaði. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Fatlað fólk og almennur leigumarkaður

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem kom út í desember 2023, leigja 20,5% fatlaðs fólks íbúð á almennum leigumarkaði. Staða fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði er oft erfið en 25% leigjenda í þeim hópi á erfitt með að ná endum saman og 43% á mjög erfitt með að ná endum saman. Vert er að taka fram að samkvæmt sömu rannsókn má greina verulegan mun milli tegund húsnæðis, en 9% fatlaðs fólks sem er í eigin húsnæði býr við verulegan efnislegan skort á móti 30% fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði. Örorkulífeyristakar hafa lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og er staða þeirra því talsvert verri og ójafnari öðrum hópum samfélagsins þegar horft er til þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á húsnæðismarkaði. Íbúðarhúsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara enda hluti af mannréttindum fólks að hafa þak yfir höfuðið.

Skattívilanir og stjórnvaldssektir

ÖBÍ styður fyrirhugaðar breytingar á skilyrðum skattaívilnunar leigusala vegna leigutekna og að ekki verði lengur nægjanlegt að leigutekjurnar hafi verið taldar fram í skattframtali til að leigusali njóti skattaívilnunarinnar, líkt tíðkast í dag. Sú aðgerð er gott dæmi um jákvæða hvata sem eru til þess fallnir að stuðla að snörpum viðbrögðum leigusala til samstarfs við stjórnvöld í breyttu lagaumhverfi, enda beinn fjárhagslegur ágóði fólginn í skráningu leigusamninga.

Jafnframt taka ÖBÍ undir ákvæði í 3. gr. sem veitir HMS heimild til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann leigusala, sem ekki hefur atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum um tekjuskatt og brýtur gegn skráningarskyldu laganna. Þó heimildin ein og sér er vissulega til bóta dugar hún skammt ef henni fylgja ekki aðföng til að vinna markvisst gegn ólöglegri leigustarfsemi. Fjöldi munnlegra leigusamninga sem jafnframt eru ekki gefnir upp til skatts hér á landi er óljós en fátt bendir til þess að hægt sé að telja þá alla upp á fingrum beggja handa. Sú staða ýtir undir húsnæðisóöryggi viðkvæmra hópa sem hafa oft fáa valkosti um þak yfir höfuðið og neyðast til að þiggja lægsta boð án samnings. Jafnframt skapar sú staða ójafnvægi í samkeppni milli leigusala sem fylgja lögum og reglum og þeirra sem komast upp með að leigja út óskráða og jafnvel ólöglega íbúðir árum saman. Mikilvægt er að allir leigusalar spili eftir sömu leikreglum, tryggi hollustuhætti og öryggi leigjenda og greiði samfélagslegan kostnað í samræmi við lög og reglugerðir.

Frá árinu 2019 hefur ráðuneyti ferðamála fjármagnað eftirlit sýslumanns í gegnum svokallaða Heimagistingarvakt með skammtímaleigu, með árlegu fjármagni á bilinu 50–70 millj. kr. Heimagistingarvaktin hefur stuðlað að auknu eftirliti með skráningarskyldri heimagistingu, sem hefur m.a. skilað sér í aukinni yfirsýn stjórnvalda yfir raunverulegt umfang starfseminnar. ÖBÍ leggur til að HMS verði tryggt viðeigandi fjármagn sem tryggir stofnunni bolmagn til að starfrækja sams konar frumkvæðiseftirlit gagnvart langtímaleigu og stuðla markvisst að sanngjörnum leigumarkaði þar sem allir spila eftir sömu leikreglum.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Húsaleigulög (almenn skráningarskylda leigusamninga og breyting leigufjárhæðar)
224. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 8. apríl 2025