Skip to main content
FréttKonur og kvár

ÖBÍ á kvennaþingi SÞ í New York

IMG_7596

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, starfsmaður ÖBÍ réttindasamtaka, sótti kvennaþing Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum í vikunni ásamt góðum hópi íslenskra fulltrúa. Með í för voru til að mynda forseti Alþingis, dómsmálaráðherra og framkvæmdastýra UN Women á Íslandi svo fátt eitt sé nefnt.

Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir fundinum í mars ár hvert og sækja hann að jafnaði þúsundir erindreka, embættismanna og annarra með það að markmiði að stuðla að jafnrétti og efla stöðu kvenna og stúlkna í heiminum.

Kvennaþingið er haldið í kjölfar alþjóðlegs baráttudags kvenna, 8. mars, en þema dagsins í ár var „Fyrir allar konur og stúlkur: Réttindi, jafnrétti, valdefling“. Kallað var eftir aðgerðum á heimsvísu til þess að stuðla að kynjajafnrétti og auknum tækifærum.